Auk íslensku talar landsliðsframherjinn ensku, sænsku, hollensku, spænsku og ítölsku. Nú síðast bættist þýskan svo við.
„Fyrir mér er það mikilvægt að læra tungumálið í landinu þar sem þú spilar. Ég fæ þýskukennara í heimsókn einu sinni í viku og við förum yfir málfræðina,“ sagði Alfreð í samtali við Bild.

„Á Spáni horfði ég mikið á barnaefni, þar er talað bæði hægar og skýrar sem er gott þegar þú ert að læra tungumál. Í barnaefninu hérna er talað full hratt svo ég horfi mikið á fréttirnar,“ sagði Alfreð sem gekk til liðs við Augsburg í byrjun febrúar.
Hann var upphaflega lánaður til þýska liðsins en eftir gott gengi seinni hluta síðasta tímabils gekk Alfreð endanlega til liðs við Augsburg í sumar.
Alfreð og félagar mæta Freiburg í þýsku úrvalsdeildinni á morgun en svo taka við tveir leikir gegn Bayern München, í deild og bikar.
„Ef þú vilt vinna titilinn þarftu að vinna besta liðið,“ sagði Alfreð um bikarleikinn í samtalinu við Bild.
„Við [íslenska landsliðið] sýndum það á EM að litla liðið á möguleika gegn því stóra. Við þurfum að fara með gott hugarfar til München og trúa því að við getum unnið.“