Það eru helst bættar samgöngur og fjölbreyttara atvinnulíf sem viðmælendur Fréttablaðsins telja að ættu að vera aðaláherslumál fyrir kosningarnar. Og ekki verður annað sagt en að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi sýnt kjördæminu áhuga. Í það minnsta hluta þess.

Hálfdan Óskarsson, íbúi á Ísafirði og einn eigenda mjólkurvinnslunnar Örnu, segir vanta meiri langtímastefnumótun á svæðinu. „Mér finnst það alltaf vera einhverjar skammtímalausnir, til að redda öllu,“ segir hann.
Hálfdan segir skorta meiri fjölbreytni í atvinnulífið á Vestfjörðum og hefur áhyggjur af hækkandi lífaldri íbúa á svæðinu.
„Við erum að missa allt unga fólkið í burtu frá okkur og það kemur ekki til baka aftur. Við, þessi gömlu, verðum ein eftir,“ segir hann. Hálfdan segist sjálfur eiga fjóra krakka og þau hafi öll farið annað í skóla.
Hálfdan viðurkennir að það sé ekki vinsælt að tala um fjölgun háskóla nú um stundir. „En ég held að það sé grunnurinn í þessu, að ungt fólk fái tækifæri til að klára sína menntun á svæðinu.“

Stærsta sveitarfélagið í kjördæminu er Akranes með um sjö þúsund íbúa. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri segir að um eitt þúsund manns aki á morgnana til vinnu, á Grundartanga eða til höfuðborgarinnar. Brýnasta hagsmunamálið sé samgöngur til og frá höfuðborginni.

Til útskýringar bendir Regína á að nýlega hafi Alþingi samþykkt að 700 milljónir króna yrðu settar í 1?+?2 veg á árinu 2018. Heildarframkvæmdum verði ekki lokið fyrr en árið 2025 og það sé of seint.
Einnig segir Regína mikilvægt að farið verði að ræða önnur samgöngumannvirki af alvöru, eins og Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu