Belgíska úrvalsdeildarliðið Lokeren ætlar nú að gera Pepsi-deildarliði Víkings tilboð í Gary Martin á næstu vikum, samkvæmt heimildum Vísis.
Gary gekk í raðir Víkings frá KR síðasta haust og gerði þriggja ára samning við Fossvogsfélagið. Hann skoraði fimm mörk í þrettán leikjum fyrir Víking í Pepsi-deildinni áður en hann var lánaður til Lilleström.
Rúnar Kristinsson, þáverandi þjálfari Lilleström, sóttist eftir kröftum Gary en saman urðu þeir Íslandsmeistarar í tvígang með KR. Rúnar var rekinn frá norska liðinu en er nú orðinn þjálfari Lokeren og vill aftur fá Gary til sín, samkvæmt heimildum Vísis.
Gary Martin skoraði fjögur mörk í tíu leikjum fyrir Lilleström og átti sinn þátt í því að liðið hélt sæti sínu í norsku úrvalsdeildinni. Það var í fallbaráttu fram í lokaumferðina en verður áfram á meðal þeirra bestu.
Fótboltavefsíðan 433.is greindi frá því í gær að Lilleström vill halda Gary hjá félaginu og kaupa hann frá Víkingum. Þá hefur verið hávær orðrómur um áhuga FH og Vals á enska framherjanum en það virðist alltaf ólíklegra að hann verði áfram í herbúðum Víkings.
Auk Rúnars eru á mála hjá Lokeren tveir íslenskir landsliðsmenn; bakvörðurinn Ari Freyr Skúlason og miðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason.

