Damir Muminovic skrifaði í dag undir nýjan þriggja ára samning við Breiðablik. Þetta kemur fram á Blikar.is, stuðningsmannavef Breiðabliks.
Damir, sem er 26 ára, hefur leikið með Blikum undanfarin þrjú tímabil og verið einn besti varnarmaður Pepsi-deildarinnar á þeim tíma. Hann hefur leikið 56 deildarleiki fyrir Breiðablik og skorað fimm mörk.
Damir er uppalinn hjá hinu Kópavogsliðinu, HK, en hann hefur einnig leikið með Leikni R. og Víkingi Ó.
Damir lék 20 leiki fyrir Breiðablik í Pepsi-deildinni á síðasta tímabili. Hann var í 3. sæti yfir bestu leikmenn deildarinnar í einkunnagjöf Fréttablaðsins og Vísis, og sá besti í fyrri umferðinni.

