Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi ISIS-samtakanna, hvetur sína menn í Mosúl til dáða og segist sannfærður um sigur í baráttunni um borgina sem nú stendur sem hæst.
Áróðursdeild ISIS sendi í morgun frá sér hljóðupptöku sem sögð er innihalda hvatningarorð frá Baghdadi þar sem hann talar til þeirra stríðsmanna sinna sem hafa komið sér fyrir í stórborginni Mósul þar sem þeir berjast nú við írakskar öryggissveitir og hersveitir Kúrda.
Talið er að um fimm þúsund vígamenn ISIS séu í borginni og segir al-Baghdadi að það sé þúsund sinnum betra að berjast til síðasta blóðdropa í stað þess að flýja í skömm.
Ef þarna er í raun og veru um al-Bagdadi að ræða, er það í fyrsta sinn síðan á síðasta ári sem til hann heyrist.
Á upptökunni má heyra Baghdadi hvetja stuðningsmenn ISIS í öðrum löndum til að framkvæma sjálfsvígsárásir, valda eyðileggingu og láta blóð vantrúaðra flæða.
