Íslandsmeistararnir voru ólíkir sjálfum sér í upphafi vetrar og töpuðu fimm af fyrstu sjö leikjum sínum í Olís-deildinni. Þá duttu Haukar líka úr leik fyrir sænska liðinu Alingsås í EHF-bikarnum.
Nú er öldin önnur. Haukar hafa unnið fimm leiki í röð og líta gríðarlega vel út.
Haukar byrjuðu á því að vinna Stjörnuna, 28-33, og Gróttu, 34-32, en það er í síðustu þremur leikjum sem þeir hafa virkilega blómstrað.
Í síðustu þremur umferðum hafa Haukar mætt Íslandsmeistaraefnum ÍBV, toppliði Aftureldingar og sterku liði Selfoss og unnið þessa leiki með samtals 36 mörkum.

Haukar unnu Eyjamenn með átta mörkum, Aftureldingu með átján mörkum og Selfoss með tíu mörkum í gær.
„Þetta hefur verið frábær vika. Við vorum á eftir þessum liðum og vissum að við þyrftum að spýta í lófana. Frammistaðan á vellinum er það sem gleður mig mest. Varnarleikurinn er allt annar, markvarslan stöðugri og sóknin góð. Ég er ánægður með það,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við Vísi eftir leikinn í gær.
„Það er allt önnur holning á liðinu í dag og það er sama hver kemur inn á, það eru allir klárir og skila sínu. Það er leikið þétt og það er gott að geta nýtt hópinn vel,“ bætti þjálfarinn við en hann leitaði til vinar síns, Dr. Viðars Halldórssonar, þegar sem verst gekk hjá Haukum.

„Mér fannst hugarfarið ekki í lagi í septembermánuði og það var orðið stórt vandamál að mér fannst. Þetta kom mér sjálfum á óvart því við áttum ekki við þetta vandamál að etja í fyrra. Mér fannst liðið vanta aðstoð með þetta í september og því kallaði ég á Viðar Halldórsson og það var hann sem hjálpaði okkur að komast aftur á sporið,“ sagði Gunnar.
Haukar eru núna í 3. sæti deildarinnar með 14 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Aftureldingar. Haukar mæta Val á heimavelli í næstu umferð.