Erlent

ISIS-liðar hafa tekið fjölda manns af lífi í Mosul

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá fjöldagröfinni sem fannst fyrr í vikunni.
Frá fjöldagröfinni sem fannst fyrr í vikunni. Vísir/AFP
Vígamenn Íslamska ríkisins eru sagðir hafa tekið fjölda fólks af lífi í Mosul þessari viku. Sameinuðu þjóðirnar segja að fjöldagröf þar sem um hundrað lík fundust fyrr í vikunni, sé einungis einn af mörgum stöðum þar sem ISIS-liðar hafa tekið fólk af lífi.

Þar að auki hafa SÞ heimildir fyrir því að vígamenn séu að sanka að sér efnum eins og ammoníaki og brennisteini til þess að framleiða efnavopn.

Aftökur hafa farið fram þar sem íbúar eru sakaðir um landráð og að starfa með írakska hernum og bandamönnum þeirra sem nú herja á ISIS-liða í borginni. Þar að auki var fólk tekið af lífi fyrir að nota farsíma, sem eru bannaðir, og að hafa skipulagt að flýja borgina.

Ravina Shamdasani, talskona mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, segir að fólk hafi verið skotið til bana og hengt. Allt niður í táninga og drengi.

Þá hafa samtökin notað unga drengi til sjálfsmorðsárása í borginni. Þeir eru útbúnir sprengjubeltum og látnir fela sig í húsasundum þar sem þeir geta komið hermönnum að óvörum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×