Mörg glæsileg mörk litu dagsins ljós í Evrópudeildinni í gærkvöldi en ekkert var fallegra en svokallað Rabóna-mark Diego Perotti, leikmanns Roma.
Roma hafði betur gegn tékkneska liðinu Viktoria Plzen, 4-1, í leik liðanna í E-riðli Evrópudeildarinnar.
Perotti fékk þó markið ekki skráð á sig, þótt spyrnan hafi verið glæsileg, því að boltinn breytti um stefnu á Aleš Matějů, varnarmanni Plzen eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.
Edin Dzeko skoraði þó sérlega glæsilega þrennu í leiknum í gær en fyrsta mark leiksins, sem hann skoraði á elleftu mínútu, var sérlega glæsilegt.
Roma tryggði sér sigur í riðlinum með sigrinum í gær en Plzen féll um leið úr leik. Tékkarnir eru enn án sigurs eftir fimm umferðir og í neðsta sæti riðilsins með þrjú stig.
