Sigrún Sjöfn Ámundadóttir hélt upp á 28 ára afmælisdaginn sinn í gær með eftirminnilegum hætti eða með því að vera stigahæst í flottum sigri íslenska kvennalandsliðsins á Portúgal í Laugardalshöllinni.
Sigrún Sjöfn skoraði sextán stig í leiknum þar af tólf þeirra í seinni hálfleiknum en hún var einnig með 8 fráköst og 6 fiskaðar villur.
Þetta var söguleg frammistaða hjá Sigrúni því hún er nú sá leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta sem hefur skorað flest stig í landsleik á afmælisdaginn sinn.
Sigrún Sjöfn bætti í gær tuttugu ára met Lindu Stefánsdóttur sem skoraði 14 stig í sigri á Kýpur á afmælisdaginn sinn 1996.
Aðeins einn annar leikmaður hafði náð að skora yfir tíu stig á afmælisdaginn sinn en Margrét Rósa Hálfdanardóttir skoraði 10 stig í sigri Möltu þegar hún hélt upp á 21 árs afmælisdaginn sinn árið 2015.
Sigrún Sjöfn kom mjög sterk inn í seinni hálfleikinn í leiknum í gær þar sem hún hitti úr fjórum af fimm skotum sínum utan af velli þar af tveimur af þremur þriggja stiga skotum sínum.
Sigrún Sjöfn hefur aðeins einu sinni áður náð að skora svona mikið í einum landsleik en hún skoraði 17 stig í sigri á Írum í vináttulandsleik á Írlandi í september síðastliðnum.
Sigrún hefur nú verið stigahæst í þremur af fjórum leikjum íslenska liðsins eftir að Helena Sverrisdóttir fór í barnsburðarleyfi í sumar.
Afmælisdagur sem fór í sögubækurnar

Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Ísland - Portúgal 65-54 | Stelpurnar unnu þær portúgölsku og hafna í þriðja sæti
Ísland vann góðan sigur á Portúgal, 65-54, í undankeppni EM kvenna í körfubolta en leikurinn fór fram í Laugardalshöllinni í kvöld.

Afmælisbarnið Sigrún: Erum með marga flotta karaktera í liðinu
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir verður í stóru hlutverki hjá íslenska kvennalandsliðinu í körfubolta á afmælisdaginn sinn.

Ragnheiður spilar sinn fyrsta landsleik í Höllinni í kvöld
Ívar Ásgrímsson, landsliðsþjálfari kvenna í körfubolta, hefur gert eina breytingu á liðinu fyrir leikinn á móti Portúgal í Laugardalshöllinni í undankeppni EM í kvöld.