Mjölnismenn óttuðust að missa af skráningarfresti fyrir EM áhugamanna í blönduðum bardagalistum vegna erfiðleika í samgöngum til Prag, þar sem mótið fer fram.
Ellefu manna hópur keppenda og aðstandenda þeirra frá Mjölni hélt í gær utan til Tékklands. Hópurinn flaug fyrst til Parísar í gærmorgun og átti að halda áfram til Prag en flugvélin sem hópurinn var í gat ekki lent í borginni vegna þoku.
Haraldur Dean Nelson, framkvæmdastjóri Mjölnis, segir að flugvélin hafi þurft að hætta við lendingu í Prag og lenti hún svo í Dresden í Þýskalandi, um 150 km frá Prag.
Mjölnismenn, sem voru með átta keppendur skráða í mótið, þurftu að staðfesta skráningu sína á staðnum fyrir klukkan 17.00 að staðartíma í dag og óttuðust að ná því ekki vegna óvæntrar lendingar í Dresden.
„Ég hringdi í mótshaldara og útskýrði málið fyrir þeim. Þessu hefur verið kippt í liðinn og ekkert að óttast fyrir keppendur,“ sagði Haraldur.
Í fyrra urðu Bjarki Þór Pálsson og Sunna Rannveig Davíðsdóttir Evrópumeistarar í sínum flokkum en eru nú bæði orðin atvinnumenn. Þar með er ljóst að þau munu ekki verja titla sína en Haraldur er bjartsýnn á gott gengi síns fólks.
„Við gerum okkur alltaf vonir. Ég held að við eigum raunhæfan möguleika á verðlaunum og að jafnvel muni einhverjir koma heim með gull um hálsinn.“
