Þegar heim var komið hófst hugmyndavinna fyrir nýju línuna. „Í hugmyndavinnunni urðu þessir litlu gripir sem skreyta mexíkóskt umhverfi ofan á, þeir kallast á spænsku milagros sem má þýða sem „kraftaverk“ og þaðan dregur línan nafn sitt. Þeir eru oft í laginu eins og hjörtu, útlimir, beinagrindur og í raun hvað sem er.“

Í línunni notast þau Helga og Orri mestmegnis við form mannabeina. „Við studdumst við hugmyndina á bak við þessa áheitagripi en við útfærðum gripina með formum mannabeina. En til viðbótar við mannabein notuðum við líka hjartað. Hjartað er það líffæri sem ræður oft huganum. Það er sterkt líffæri sem við tengjum flest við. Það er svo ljóðrænt og fallegt,“ útskýrir Helga.
Allir gripir línunnar eru úr silfri og bronsi, fyrir utan hjartað. Það er úr gulli. „Já, hjartað verður að vera úr gulli. Það er skemmtilegur „konstrast“ í því að blanda gylltu hjarta saman við mannabein úr silfri og bronsi. Svo notum við líka ferskvatnsperlur í línunni, til að gera þetta ennþá meira rómantískt og grand.“
Nýja skartgripalínan verður frumsýnd í kvöld í kokteilboði á Jacobsen Loftinu klukkan 19.00. Þar verða einnig til sýnis ljósmyndir af Milagros-línunni eftir Sögu Sigurðardóttur. „Við höfum unnið með Sögu áður og samstarf okkar hefur verið farsælt, hún skilur okkur og við höfum mikla trú á henni.“