Dauðsföll stórstjarna á borð við Muhammed Ali, Prince og David Bowie hafa sett svip sinn á árið sem er að líða, sem og stjórnmál, hryðjuverk, flóttamenn og stríðið í Sýrlandi. Áherslan í myndbandinu er á samskipti og samheldni á erfiðum tímum.
„2016 var erfitt ár fyrir marga víðsvegar um heiminn. En það sem veitir mér von er að jafnvel okkar myrkustu stundir urðu aðeins bjartari vegna þeirrar tengingar sem við deilum hvert með öðru,“ segir í færslu Zuckerbergs.
Það var einmitt samheldni Íslendinga sem kom víkingaklappinu í heimspressuna fyrr á árinu og í myndbandi Facebook sést Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu leiða stuðningsmenn í víkingaklappinu. Einnig bregður Íslendingum fyrir á Arnarhóli.
Hægt er að horfa á myndbandið og rifja upp árið hér að neðan.