Árlegur jólamarkaður Sólheima opnar í Kringlunni í dag og verður opinn fram á sunnudag. Til sölu verða alls kyns vörur og munir sem íbúar Sólheima hafa unnið hörðum höndum að við að framleiða síðan í haust.
Að sögn Guðmundar Ármanns Péturssonar, framkvæmdastjóra Sólheima, hafa íbúarnir gert ýmsa list-og skrautmuni í vinnustofum og þá hefur matvælaframleiðslan verið í fullum gangi einnig. Þannig hafa íbúarnir gert brauð og kökur sem verða til sölu og ýmislegt matarkyns úr grænmetinu sem ræktað er á Sólheimum. Vöruúrvalið er því fjölbreytt.
Jólamarkaðurinn hefur verið í fjöldamörg ár í Kringlunni og salan ávallt gengið vel segir Guðmundur. Hann á ekki von á að breyting verði þar á í ár og býst ekki við að það verði mikið af vörum eftir þegar markaðnum lýkur á sunnudag.
Jólamarkaður Sólheima opnar í Kringlunni
