Hrafnhildur Lúthersdóttir, sundkona úr SH, synti fyrst Íslendinga á Heimsmeistaramótinu í 25 metra laug sem hófst í dag í Windsor í Kanada.
Hrafnhildur setti Íslandsmet í sínu fyrsta sundi með því að koma í mark á 30.64 sekúndum. Hrafnhildur náði fimmtánda besta tímanuum í undanrásum og var næstsíðust inn í undanúrslitin.
Íslandsmet Hrafnhildar í 50 metra bringusundi var bæði frá árinu 2014 og 2015 en hún jafnaði ársgamalt met sitt þegar hún synti á 30,67 sekúndum í fyrra.
Hrafnhildur synti á annarri braut í sjöunda og síðasta riðli í undanrásum í 50 metra bringusundi kvenna. Hún náði sjötta besta tímanum í sínum riðli.
Fjórar sundkonur syntu undir 30 sekúndum í undanrásunum en hin jamaíska Alia Atkinson var með besta tímann eða 29,48 sekúndur. Finninn Jenna Laukkanen var með næstbesta tímann (29,71 sekúndur) og hin bandaríska Lilly King varð þriðja á 29,84 sekúndum.
Íslandsmet hjá Hrafnhildi í fyrsta sundi | Komst í undanúrslit
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
