Kári Jónsson, bakvörður Drexel háskólans í bandarísku háskóladeildinni í körfubolta, var stigahæstur í naumum 78-72 sigri á High Point á útivelli í gær.
Var þetta annar sigur Drexel í röð eftir tvo tapleiki þar á undan. Staðan var jöfn í hálfleik en Drexel var með frumkvæðið í seinni hálfleik.
High Point minnkaði muninn í þrjú stig stuttu fyrir lok leiksins en vítaskot Kára gerðu endanlega út um leikinn á lokamínútunum en þetta var fjórði sigur Drexel í átta leikjum.
Kári var líkt og kom fram hér fyrir ofan stigahæstur í liði Drexel í nótt með 25 stig en hann hitti úr 7 af tólf þriggja stiga skotum sínum.
