„Þetta eru mestu fornminjar á Íslandi,” segir Árni Einarsson líffræðingur, í þættinum Landnemarnir á Stöð 2, en það var fyrir um aldarfjórðungi sem Árni í störfum sínum fyrir Náttúrurannsóknarstöðina við Mývatn fór að átta sig á því að slíkar rákir fundust víða í Þingeyjarsýslum.
Þar er þegar búið að skrásetja um 600 kílómetra þannig að þetta var víðtækt kerfi. Samskonar fyrirbæri eru jafnframt að finnast í öðrum landshlutum. Þetta reynast vera leifar af upphlöðnum görðum og sýna aldursgreiningar að þeir elstu voru hlaðnir um miðja tíundu öld, eða um svipað leyti og Alþingi var stofnað á Þingvöllum.
Garðarnir virðast því vera einhver elstu merki um að samfélag sé búið að myndast á Íslandi. Árni segir að einn bóndi hafi ekki hlaðið slíkan garð heldur hafi jafnvel þrír bæir sameinast um hleðsluna hverju sinni.

Jafnframt kynnast þeir nýrri ógn, jarðeldum og öðrum náttúruhamförum, sem fylgja þessu nýja landi. Landið reyndist svo harðbýlt, með eldgosum, drepsóttum og kuldaskeiðum, að einstaka húsdýrastofnar dóu út. Arfgerðir töpuðust úr mannfólkinu og eftir situr þjóð með breytt erfðamengi.
Um þetta er fjallað í næsta þætti Landnemanna á mánudagskvöld klukkan 19.20, strax að loknum fréttum. Hér má sjá sýnishorn úr þættinum. Þeir sem misstu af síðasta þætti geta séð hann í dag en þættirnir eru endursýndir á Stöð 2 síðdegis á sunnudögum.