Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta, er búinn að skrifa undir nýjan samning við Knattspyrnusamband Íslands og mun því halda áfram að þjálfa stelpurnar okkar eftir EM á næsta ári.
Freyr skrifaði undir tveggja ára framlengingu á samningi sínum og er með með samning við KSÍ til 31. desember 2018. Ákvæði í samningnum segir að honum geti svo verið framlengt ef Ísland kemst í lokakeppni HM 2019 í Frakklandi.
Sjá einnig:Freyr fékk mjög gott tilboð frá Kína: „Peningar eru ekki allt“
Undir stjórn Freys vann íslenska liðið sér sæti á EM 2017 í Hollandi en liðið fór á kostum í riðlakeppni og vann níu af tíu leikjum sínum og hélt níu sinnum hreinu.
Áður en Freyr tók við kvennalandsliðinu stýrði hann uppeldisfélagi sínu Leikni í Pepsi-deild karla og þar áður í 1. deildinni en hann var einnig þjálfari kvennaliðs Vals og varð þar margsinnis Íslandsmeistair.
Auk starfa sinna með landsliðið mun Freyr hafa umsjón með U23 ára verkefni KSÍ og vera A-landsliði karla til aðstoðar eins og hann hefur verið undanfarin misseri.
