Rökstuðningur fyrir valinu á þessum viðskiptum var samhljóma hjá þeim sem völdu þau viðskipti ársins. Nova er fyrirtæki sem fór frá því að vera hugmynd sem ýmsir höfðu efasemdir um yfir í arðbært fyrirtæki sem breytti varanlega landslagi á markaði, jók samkeppni sem leiddi til hagstæðari verðlagningar þjónustu en ella hefði orðið.

Þetta módel heppnaðist og í dag eru fyrstu viðskiptavinir Nova orðnir fullorðið fólk og verðmætur viðskiptamannahópur fyrir þá þjónustu sem byggð hefur verið ofan á grunnmódelið. Í viðtali við Markaðinn var Björgólfur Thor spurður út í lykilinn að velgengni slíkrar uppbyggingar. „Ég held að ef einhver lykill sé til að velgengni, þá sé það hæfileikinn til að aðlagast hratt. Ekki það að vera klárastur, sterkastur eða fljótastur,“ svaraði hann.
Umsagnir um viðskiptin hjá svarendum Markaðarins voru nokkuð einróma: „Björgólfur vann það afrek að laða beina erlenda fjárfestingu inn í lítið land með örmynt og viðskiptahöft með sölu sinni á símafyrirtækinu Nova. Um leið fjórfaldar hann fjárfestingu sína í fyrirtækinu sem vaxið hefur ævintýralega síðustu ár. Það segir allt sem segja þarf um ágæti þessara viðskipta.“ Þá var einnig bent á að uppbygging Nova sýndi að hægt væri að koma inn á markað sem virtist í jafnvægi og ná verulegri hlutdeild „Það er afrek að hafa stofnað símafyrirtæki á jafn litlum markaði og Ísland er, náð þeim árangri sem fyrirtækið hefur náð sem leiddi til fjórföldunar á verðmæti fyrirtækisins frá stofnun til sölu.“

Nokkur önnur viðskipti voru nefnd í valinu á viðskiptum ársins. Næst á eftir sölu Nova kom sala Friðriks Steins Kristjánssonar, Framtakssjóðsins og Horns II á Invent Farma til Apax Partners. Rætur Invent Farma liggja í kaupum Friðriks ásamt fjárfestum á lyfjaverksmiðju á Spáni árið 2005. Frá kaupum Friðriks hefur verðmætið fjórfaldast, en Framtakssjóðurinn og Horn II keyptu hlut í félaginu haustið 2013 og nær tvöfölduðu verðmæti sinna hluta þrátt fyrir styrkingu krónunnar á tímabilinu. Í baklandi þessara fjárfestinga eru helstu lífeyrissjóðir landsins og hagnaðurinn af þessari fjárfestingu skilar sé því á endanum til almennings í landinu. Um samstarfið við fagfjárfestasjóðina sagði Friðrik í viðtali við Markaðinn
„Það var mikill akkur að fá fagfjárfesta eins og Framtakssjóð Íslands og Horn II í hluthafahópinn. Samstarfið við þá einstaklinga sem stjórna þessum sjóðum hefur gengið mjög vel.“
Nokkur önnur viðskipti voru nefnd. Sala Domino’s á Íslandi á hlut til Domino’s í Bretlandi var nefnd, en með því innleystu íslenskir fjárfestar hluta af fjárfestingu sinni og styrktu stöðu fyrirtækisins við uppbyggingu Domino’s á Norðurlöndunum. Domino’s á Íslandi hefur leyfi til að opna staði í Noregi, Færeyjum og Svíþjóð. Birgir Þór Bieltvedt hefur leitt uppbyggingu félagsins en hann seldi félagið fyrir fjármálakreppuna en keypti það síðan aftur í efnahagslægðinni sem fylgdi í kjölfarið.
Búvörusamningurinn fékk nokkur atkvæði og var þá skýrt tekið fram að viðskiptin væru góð frá sjónarhóli bænda.