Sport

Thelma Björg í Íslandsmetastuði í upphafi nýs árs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sundkonan Thelma Björg Björnsdóttir byrjar árið 2017 af miklum krafti en hún setti þrjú Íslandsmet um síðustu helgi.

Thelma Björg setti Íslandsmetin meistaramóti Reykjavíkur í sundi í 25 metra laug sem fór fram í Laugardalshöllinni.

Metin setti Thelma Björg í 200 metra bringusundi, 50 metra bringusundi og 100 metra bringusundi en þetta eru fyrstu Íslandsmet ársins í sundi úr röðum fatlaðra.

Thelma sem syndir fyrir Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík keppir í flokki S6 (hreyfihamlaðir).

Thelma synti á 3:57,05 mínútum í 200 metra bringusundi, á 53,54 sekúndum í 50 metra bringusundi og á 1:52,44 mínútu í 100 metra bringusundi.

Thelma Björg Björnsdóttir var kosin íþróttamaður ársins hjá fötluðum þrjú ár í röð frá 2013 til 2015 en missti titilinn til Sonju Sigurðardóttur í fyrra.

Ef marka má þessa frábæru byrjun á árinu þá er Thelma Björg staðráðin í að endurheimta þann flotta titil á árinu 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×