Enski boltinn

ÍA hafði betur í Vesturlandsslagnum | Eyjamenn unnu öruggan sigur í Keflavík

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Garðar Gunnlaugsson komst á blað í dag.
Garðar Gunnlaugsson komst á blað í dag. vísir/anton
ÍA vann öruggan 4-1 sigur á Víkingi Ólafsvík í seinni leik dagsins í A-deild Fótbolta.net mótsins í Akraneshöllinni í dag en fyrr í dag fögnuðu Eyjamenn öruggum sigri í Keflavík.

Skagamenn byrjuðu leikinn af krafti og komust í 2-0 með mörkum frá Steinari Þorsteinssyni og Ólafi Vali Valdimarssyni en Guðmundur Steinn Hafsteinsson náði að minnka muninn fyrir Ólsara skömmu fyrir leikhlé.

Ragnar Már Lárusson kom Skagamönnum aftur tveimur mörkum yfir tíu mínútum fyrir leikslok og stuttu síðar gulltryggði Garðar Bergmann Gunnlaugsson sigur Skagamanna með marki undir lok venjulegs leiktíma.

ÍA er komið í toppsæti riðilsins en Stjarnan náð að stela toppsætinu þegar þeir mæta Ólsurum í lokaumferð A-deildarinnar.

Í fyrri leik dagsins kláruðu Eyjamenn leikinn strax í fyrri hálfleik í Reykjaneshöllinni en sigurinn skaust ÍBV upp í annað sæti B-riðilsins.

Frans Sigurðsson kom ÍBV yfir í upphafi leiksins en Óskar Elías Zoega Óskarssyni og Kaj Leó í Bartalsstovu kláruðu leikinn með sitt hvoru markinu um miðbik fyrri hálfleiks.

Var þetta þriðja tap Keflvíkinga í riðlinum sem þýðir að þeir hafna í neðsta sæti riðilsins.

Upplýsingar um markaskorara koma af Fotbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×