Sport

Nadal vann í dramatískum maraþonleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Nadal fagnar sigri í dag.
Rafael Nadal fagnar sigri í dag. Vísir/Getty
Rafael Nadal tryggði sér dramatískan sigur á Grigor Dimitrov frá Búlgaríu í undanúrslitum opna ástralska meistaramótsins í tennis í morgun.

Spánverjinn Nadal fagnaði vel og innilega í leikslok enda búinn að glíma við erfið meiðsli í langan tíma og hafði ekki komist í úrslitaleik á risamóti síðan 2014.

Nadal er einn sigursælasti tenniskeppandi allra tíma og hefur komist í úrslit á risamóti í 21 skipti. Hann á að baki samtals fjórtán risamótstitla en aðeins einn í Ástralíu, frá 2009.

Sjá einnig: Federer áfram eftir frábæran slag

Þetta var raunar í fyrsta sinn sem hann keppir í undanúrslitum á risamóti síðan hann vann opna franska árið 2014.

Viðureign Nadal og Dimitrov stóð yfir í rétt tæpar fimm klukkustundir og réðist í oddasetti, þar sem Nadal hafði betur, 6-4. Nadal vann fyrsta settið og þeir skiptust svo á að vinna sett eftir það.

Sjá einnig: Systurnar mætast í úrslitunum í Ástralíu

Nadal mætir nú Roger Federer í úrslitaleiknum á sunnudag og er það í fyrsta sinn sem þeir mætast í úrslitum á risamóti síðan 2011. Þeir hafa marga hildi háð í gegnum tíðina og voru um langan tíma tveir allra bestu tenniskappar heims.

Úrslitaviðureignin í kvennaflokki er ekki síður söguleg en þar mætast systurnar Serena og Venus Williams.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×