Stjarnan og FH mætast í úrslitaleik Fótbolta.net mótsins í ár en þetta varð ljóst eftir að Stjörnumenn tryggðu sér sigur í sínum riðli í kvöld.
Stjarnan þurfti sigur á Víkingi úr Ólafsvík til að tryggja sér sigur í riðlinum og það tókst.
Stjarnan vann leikinn 2-0 þökk sé mörkum frá Guðjóni Baldvinssyni og Mána Austmann Hilmarssyni með átta mínútna millibili snemma í síðari hálfleik.
Hinn átján ára gamli Máni Austmann Hilmarsson skoraði markið sitt úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur.
Stjarnan mætir FH í úrslitaleik í Kórnum á laugardaginn en ÍA og ÍBV spila um þriðja sætið. FH vann alla sína leiki í hinum riðlinum.
Breiðablik og Grindavík spila um fimmta sætið og svo spila Keflavík og Víkingur Ó. um sjöunda sætið og það að forðast að lenda í síðasta sætinu.
Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá fótbolti.net.
