Sport

Þrumaði tennisbolta í andlit dómara og var dæmdur úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Denis Shapovalov trúði ekki eigin augum eftir að hann sá hvað hann hafði gert.
Denis Shapovalov trúði ekki eigin augum eftir að hann sá hvað hann hafði gert. Vísir/AFP
Hinn sautján ára Denis Shapovalov var dæmdur úr leik fyrir að slá tennisbolta af miklum krafti í andlit dómara í viðureign Bretlands og Kanada í Davis-bikarnum í gær.

Um algert óviljaverk var að ræða en Shapovalov var að svekkja sig á töpuðu stigi og brást við með þessum hætti.

Hinn ungi Shapovalov sá um leið eftir öllu saman en var engu að síður dæmdur úr leik fyrir óíþróttamannslega framkomu. Dómarinn slasaðist ekki alvarlega og fékk einlæga afsökunarbeiðni frá Shapovalov eftir viðureignina.

Svo fór að Bretar fögnuðu sigri í viðureigninni vegna þessa, 3-2. Shapovalov skammaðist sín mjög í viðtölum við fjölmiðla.

„Mér líður hræðilega yfir því að hafa brugðist liðinu mínu, landinu mínu og hagað mér á þann máta sem ég tel afar óæskilegan,“ sagði hann.

„Ég lofa því að þetta er í síðasta sinn sem ég geri nokkru sinni svona lagað. Ég ætla að læra af þessu.“

Myndband af þessu má sjá á vef breska blaðsins The Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×