Aníta Hinriksdóttir vann 800 metra hlaupið í Frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikjanna með glæsibrag. Hún setti Íslandsmet innanhúss eftir frábæran lokakafla.
Aníta Hinriksdóttir kom í mark á 2:01,18 mínútum og bætti sitt eigið met því í Prag í mars 2015. Gamla met Anítu var 2:01,56 mínútur en þetta er í sjöunda skiptið sem hún setur met í þessari grein..
Aníta verður með á EM í Belgrad eftir mánuð og það er ljóst að hún er í frábæru formi. Hún verður ekki ein á Evrópumótinu því Arna Stefanía Guðmundsdóttir tryggði sér einnig þátttökurétt fyrr í dag.
„Það var pressa að keppa á heimavelli en ég var mjög ánægð með það hvernig ég kláraði þetta,“ sagði Aníta Hinriksdóttir í viðtali í útsendingu Sjónvarpsins frá keppninni.
Aníta byrjaði rólega og það stefndi ekki í met. Aníta átti hinsvegar frábæran endasprett og stakk alla keppinauta sína af.
Hedda Hynne frá Noregi varð önnur á 2:01,55 mínútum og í þriðja sæti var Hollendingurinn Sanne Verstegen á 2:02,99 mínútum.
Aníta setti nýtt glæsilegt Íslandsmet á RIG
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
