Norski fótboltamaðurinn Robert Sandnes er á leið í KR og mun spila með liðinu í Pepsi-deild karla á komandi sumri, samkvæmt heimildum Vísis.
Sandnes hefur áður spilað hér á landi með Selfossi sumarið 2012 og Stjörnunni ári síðar. Hann féll með Selfyssingum árið 2012 en náði Evrópusæti árið 2013 með Stjörnunni og komst í bikarúrslitin sama ár þar sem Garðabæjarliðið tapaði fyrir Fram í vítaspyrnukeppni.
Í heildina spilaði Sandnes, sem getur bæði spilað sem vinstri bakvörður og á kantinum, 42 leiki í deild og bikar á tveimur tímabilum og skoraði tvö mörk.
Hann fór frá Stjörnunni til Start í Noregi þar sem hann hefur spilað í úrvalsdeildinni undanfarin þrjú tímabil. Hann spilaði 22 leiki af 30 í deildinni fyrir Start á síðustu leiktíð, þar af átta sem byrjunarliðsmaður. Start endaði lang neðst og féll.
Sandnes verður þriðji leikmaðurinn sem KR-ingar fá til sín eftir að síðasta tímabili lauk en áður eru komnir bakvörðurinn Arnór Sveinn Aðalsteinsson frá Breiðabliki og framherjinn Garðar Jóhannsson frá Fylki. Farnir eru Hólmbert Aron Friðjónsson í Stjörnuna og Jeppe Hansen í Keflavík.
