Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, á von á því að sett verði lög á verkfall sjómanna í byrjun næstu viku. Guðmundur lét hafa þetta eftir sér á vef félagsins en hann segir í samtali við Vísi að miðað við þá hagsmuni sem nú eru komnir upp með fyrirhugaðar loðnuveiðar og það ástand sem ríkir nú í byggðum landsins að gripið verði inn í deiluna af hálfu stjórnvalda og verkfallið stöðvað með lagasetning.
„Ég held að við séum að nálgast þann tímapunkt að við þurfum að klára þetta,“ segir Guðmundur í samtali við Vísi en hann segir samninganefndir sjómanna bíða eftir því hvað muni gerast í pólitíkinni í dag.
Kallað hefur verið eftir því að fæðispeningar sjómanna verði gefnir skattfrjálsir en hann segir að ef stjórnvöld muni ekki gera þá breytingu á skattkerfinu verði að setjast niður og velta fyrir sér öðrum möguleikum til að reyna að leysa deiluna.
„Ekki getum við haldið þessari deilu áfram í verkfalli endalaust.“
Deiluaðilar funduðu með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra í gær en þar lagði Þorgerður til að heildstæð greining og skoðun á fæðis- og dagpeningum almennt á vinnumarkaði fari fram.
