Innlent

Borgarmynd Reykjavíkur breytist umtalsvert gangi áætlanir eftir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Helstu hverfi Reykjavíkur sem áætlað er að rísi á næstu árum.
Helstu hverfi Reykjavíkur sem áætlað er að rísi á næstu árum. Vísir/Garðar
Alls eru hátt í 60 byggingarreitir í Reykjavík þar sem gert er ráð fyrir að byggt verði íbúðarhúsnæði með 50 almennum íbúðum eða fleiri. Miðað við helstu byggingarsvæði borgarinnar má gera ráð fyrir að byggð þéttist töluvert í Reykjavík á næstu árum og áratugum.

Samkvæmt áætlunum borgarinnar er gert ráð fyrir að hafin verði uppbygging á sjö þúsund íbúum til ársloka 2020. Mikil áhersla er lögð á eiginlega miðju borgarinnar, svæðinu í kringum Ártúnshöfða og Elliðarárvogum þar sem mikil uppbygging er í kortunum.

Þá er einnig gert ráð fyrir fjölmörgum smærri reitum þar sem stefnt er að fjölgun íbúða. Hér að neðan má sjá yfirlit yfir þau svæði sem telja má sem helstu uppbyggingarsvæði Reykjavíkurborgar á næstu árum og áratugum.

Vogabyggð

Samkvæmt deiliskipulagstillögu fyrir Vogabyggð, svæði sem afmarkast af Sæbraut, Kleppsmýrarvegi og Súðarvogi er gert ráð fyrir að þar muni rísa 1.100 til 1.300 íbúðir.

Gert er ráð fyrir því að meðalstærð íbúða verði 120 fermetrar og er reiknað með að byggja þurfi skóla og leikskóla á svæðinu í samræmi við uppbyggingu íbúðabyggðar. Lögð er áhersla á þriggja til fimm hæða byggð sem myndi heildstæða götumynd. Vistvænar samgöngur, umferð gangandi, hjólandi og almenningssamöngur, eru í fyrirrúmi auk þess sem svæðið á að vera tengt við Elliðárdal, Elliðarárósar og nærliggjandi byggð.

Reiknað er með að fjórðungur íbúðanna verði undir leigu- og búseturéttaríbúðir.  Auk þess er gert ráð fyrir göngubrú og stíflu við Háu­bakka­tjörn, brú yfir Naustavog, færslu á Kleppsmýrarvegi og færslu skólpdælustöðvar.

Tillagan sem hér ræðir nær til Vogabyggðar 2 en alls er svæðinu skipt upp í fimm svæði sem afmarkast af Miklubraut í suðri að Kleppsmýrarvegi í norðri, Sæbraut í vestri og Elliðarárvogi í austri. Reikna má með að svæðið verði tengt við fyrirhugaða byggð á Ártúnshöfða.

Hlíðarendi

Óhætt er að segja að fyrirhuguð byggð við Hlíðarenda sé sú umdeildasta af þeim sem fyrirhugað er að rísi í Reykjavík á næstu árum. Byggðin rís við flugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar á helgunarsvæði flugvallarins.

Grundvöllur fyrir byggð á svæðinu var lokun NA-SV flugbraut Reykjavíkurflugvallar, svokallaðrar neyðarbrautar. Lokunin var umdeild og höfðaði Reykjavíkurborg mál á hendur innanríkisráðuneytinu eftir að innanríkisráðherra neitaði að loka brautinni. Málið fór að lokum fyrir Hæstarétt sem kvað á um að loka

Á Hlíðarenda er fyrirhugað að reisa 600 íbúðir og verður meðalstærð þeirra 113 fermetrar. Gert er ráð fyrir þriggja til fimm hæða byggð og er mikil áhersla lögð á að byggðin verði fjölbreytt en kvaðir eru settar um uppskiptingu húsreita, mismunandi útlit og fjölbreytileika húshæða. Auk þess eru settar fram kvaðir sem eiga að tryggja aðlaðandi umhverfi.

Helmingur íbúða á svæðinu verða tveggja herbergja, 21 prósent 3 herbergja, 15 prósent 4 herbergja og 14 prósent stærri. Á svæðinu verður einnig íbúðahótel fyrir námsmenn. Framkvæmdir eru þegar hafnar.

Yfirlitsmynd yfir Hlíðarenda
Ártúnshöfði

Gert er ráð fyrir að miklar breytingar verði á Ártúnshöfða á næstu árum. Skipulagshugmyndir gera ráð fyrir að að hverfið muni breyt­ast í blandaða byggð íbúða og at­vinnu­hús­næðis auk þess sem að hverfið muni stækka til norðurs á land­fyll­ing­um.

Ártúnshöfði er skilgreindur sem einn stærsti þéttingarreitur borgarinnar. Gert er ráð fyrir uppbyggingu íbúðahúsnæðis og innviða í hverfinu fyrir allt að 11.500 manns. Fjöldi íbúða gæti orðið um 5.100. Meirihluti þeirra eða 4.100 á reitum sem skilgreindir eru fyrir íbúðabyggð, en um þúsund íbúðir yrðu í blandaðri byggð.

Reiknað er með að nýtt hverfi á Ártúnshöfða muni mynda nýtt skólahverfi með Vogabyggð. Reisa þyrfti tvö til þrjá grunnskóla og þrjá til fjóra leikskóla.  Unnið er að deiliskipulagi svæðisins og samkvæmt áætlun Reykjavíkurborgar er stefnt að því að þeirri vinnu ljúki á næsta ári.

Vesturbugt

Reikna má með að Vesturbugt verði eitt eftirsóknasta byggingarsvæði Reykjavíkur. Lóðirnar eru í hjarta Reykjavíkur með útsýni yfir höfnina, sjóinn og Esjuna. Gert er ráð fyrir að þar muni 176 íbúðir verða reistar og að meðalstærð þeirra verði 100 fermetrar. Íbúðirnar skiptast í útsýnisíbúðir, almennar íbúðir og raðhús auk þess sem að gert er ráð fyrir leikskóla.

Gert er ráð fyrir samstarfi við einkaaðila við uppbygginguna, auk félaga sem reka leigu- og búseturéttarhúsnæði og að minnst 80 íbúðir verði á vegum Félagsbústaða og samstarfsaðilum undir merkjum Reykjavíkurhúsa. Þá er gerð krafa um að 10 prósent íbúða verði  leiguíbúðir.

Deiliskipulag fyrir Vesturbugt gerir ráð fyrir vistvænum áherslum og vönduðum almenningsrýmum sem styðja vel við mannlíf og útivist.  Torg og stígar innan lóða verða hluti almenningsrýmis.

Kirkjusandur

Á Kirkjusandsreit, þar sem höfuðstöðvar Íslandsbanka voru og við Borgartún 41, er gert ráð fyrir að 300 íbúða hverfi verði verði reist. Af þessum 300 íbúðum munu 180 koma í hlut borgarinnar en Íslandsbanki mun ráðstafa þeim 120 íbúðum sem eftir eru og atvinnuhúsnæði sem mun rísa á svæðinu.

Á reitnum er fyrirhuguð blönduð miðborgarbyggð. Reitnum verður skipt upp í nokkrar lóðir og er byggingarmagn í heild áætlað um 75–85 þúsund fermetrar. Um helmingur byggingarmagns verður atvinnuhúsnæði, skrifstofur og þjónusta.

Íbúðir verða misstórar og eiga að henta jafnt einstaklingum sem stærri fjölskyldum. Gott aðgengi verður tryggt til að fólk með skerta hreyfigetu geti búið á og ferðast um svæðið. Gert er ráð fyirir að meðalstærð íbúða verði 110 fermetrar og að helmingur íbúða verði á hendi húsnæðisfélaga.

RÚV - reitur

Á RÚV-reitnum svokallaða, þar sem Ríkisútvarpið er nú til húsa er gert ráð fyrir að byggðar verði 360 íbúðir. Einnig er gert ráð fyrir 800 fermetrum af verslunar- og þjónustuhúsnæði. Framkvæmdir eru nú þegar hafnar en gatnagerð og lagnavinna hófst þar í nóvember.

Yfirbragð hverfisins verður grænt og verða þök húsanna lögð gróðurþekju. Þetta á að bæta loftgæði borgarinnar og létta á fráveitukerfum, auk þess talið er að græn þök bæti útsýni og yfirbragð.

Gert er ráð fyrir fjölbreytileika í íbúðastærðum. Engin ein íbúðargerð verði umfram 35 prósent íbúða á hverri lóð og sameiginlegur fjöldi eins og tveggja herbergja íbúða fari aldrei yfir 60 prósent. 

Gufunes

Verðlaunatillaga í hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Gufunessvæðisins gerir ráð fyrir að svæðið verði einskonar „fríríki frumkvöðla.

Arkitektastofan jvantspijker + Felixx hreppti fyrstu verðlaun og í tillögu stofunnar segir að Gufunes eigi að verða eins konar ventill fyrir ungt fólk sem kýs grósku og borgarbrag í stað úthverfa. Í Gufunesi verður blönduð byggð fyrir íbúðir, smærri atvinnurekstur, skapandi iðnað, menningu, menntun, sýningar- og atburði, ferðamannaiðnað og sjálfbærar samgöngur að því er kemur fram á vef Reykjavíkurborgar.

Tillöguhöfundar telja að Gufunes geti orðið einstakt hverfi í borginni þar sem iðnaðarmannvirki, manngert landslag, afþreying- og útivist, og stórfengleg fjallasýn við sjávarsíðu mynda órjúfanlega heild en meðal annars er gert ráð fyrir ferjusamgöngum á milli Gufuness og miðborgarinnar.

Áframhaldandi skipulagsvinna á svæðinu er ekki bundin við þátttakendur né verðlaunahafa eingöngu.

Talsverðar breytingar á starfsemi í Gufunesi hafa þegar verið ákveðnar. Reykjavík Studios hefur keypt gömlu Áburðarverksmiðjuna og hyggst reka þar kvikmyndaver. Þá hefur verið samið við Íslensku gámaþjónustuna um að flytja starfsemi sína úr Gufunesi upp á Esjumela.

Önnur svæði

Að auki er gert ráð fyrir stækkun hverfis í Úlfarsárdal úr 756 íbúðum í 1200. Verið er að vinna að endurskoðun á deiliskipulagi.

Þá er einnig gert ráð fyrir að töluverðri uppbyggingu í Skerjafirði í grennd við Reykjavíkurflugvöll á 17 hektara landi. Vinna við skipulag Skerjabyggðar er þó ekki hafin. Þar er gert ráð fyrir 800 íbúðum og 150 stúdentaíbúðum, blandaðri byggð íbúða og atvinnustarfsemi.

Fyrir utan þau svæði sem hér hefur verið minnst á er gert ráð fyrir þéttingu byggðar víða um borg en á vef Reykjavíkurborgar má sjá kort af helstu uppbyggingarsvæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×