Stelpurnar okkar í kvennalandsliðinu eru einnig í 20. sæti á FIFA-listanum en ekki hefur verið gefinn út listi hjá konunum síðan í desember. Þær féllu um fjögur sæti á síðasta lista en héldu sér inni á topp 20 þangað sem strákarnir eru nú komnir í fyrsta skipti.
Ísland er nú á meðal margra milljónaþjóða sem eru með karla- og kvennalandslið á topp 20 á heimslistanum. Sumar þessara þjóða eru margfaldir heimsmeistarar þannig að þetta er svo sannarlega ekki ónýtur listi sem fótboltafólkið er á.

Eins og staðan er núna, eftir að karlalistinn var birtur í gær, eru átta þjóðir með karla- og kvennalandslið á topp 20 á heimslistanum. Þetta eru Brasilía, Þýskaland, Frakkland, Spánn, Sviss, England, Ítalía og Ísland. Brassarnir, Þjóðverjarnir og Frakkarnir eru einu þrjár þjóðirnar með lið á topp tíu á báðum listum.
Þetta eru engar smáþjóðir í fótboltaheiminum í gegnum söguna.Karlaliðin hafa samtals unnið 16 heimsmeistaratitla af þeim 20 sem í boði hafa verið og kvennamegin er Þýskaland algjört stórveldi með tíu sigra samtals frá heimsmeistara- og Evrópumótum.
Árangur íslenska liðsins er ævintýralegur ef horft er til íbúafjölda landanna. Mestur er munurinn á Brasilíu á toppnum og Íslandi á botninum. Í Brasilíu búa 260 milljónir en aðeins 330 þúsund á Íslandi. Samt er Ísland með lið í karla- og kvennaflokki á topp 20.
Meðalíbúafjöldi hinna landanna sjö er 81 milljón og ef við tökum út fjölmennustu og fámennustu þjóðirnar af hinum sjö, Brasilíu og Sviss, er meðalíbúafjöldi hinna fimm 52 milljónir. Þaðan er langur vegur í ríflega 330 þúsundin sem búa hér.

Árið 2016 var besta fótboltaár í sögu Íslands eins og flestir þekkja. Strákarnir okkar heilluðu heiminn og komust í átta liða úrslit EM í Frakklandi á meðan stelpurnar okkar gerðu grín að sínum riðli í undankeppni EM 2017. Þar unnu þær alla leiki nema einn, skoruðu 34 mörk og fengu aðeins á sig tvö. Karlalandsliðið hélt svo áfram í undankeppni HM 2018 og fékk sjö stig af tólf mögulegum í fyrstu fjórum leikjunum.
Karlalandsliðið er sem fyrr langefst af öllum Norðurlandaþjóðunum og svo sannarlega konungur norðursins en næsta þjóð er Svíar sem eru í 44. sæti, heilum 24 sætum á eftir litla Íslandi.
Stelpurnar eru ofar á Evrópulistanum en strákarnir. Þær eru í ellefta sæti Evrópuþjóða en strákarnir eru komnir upp í tólfta sætið. Það yrði stórt fyrir karlalandsliðið að halda sér þar því eins og staðan er núna eru strákarnir inni í A-riðli Þjóðardeildarinnar sem fer af stað haustið 2018.
Stóra markmið stelpnanna í ár er að bæta eigin árangur á EM 2017 í Hollandi en strákarnir berjast um að komast á HM 2018. Stóra markmiðið í íslenska fótboltanum gæti svo verið að koma þessum tveimur mögnuðu landsliðum á topp tíu á heimslistanum.
