Sænska öryggislögreglan hefur handtekið mann vegna gruns um að hann hafi njósnað um flóttamenn frá Tíbet í Svíþjóð. Hinn handtekni er talinn hafa veitt starfsmanni leyniþjónustu annars ríkis upplýsingar.
Talsmann félags Tíbeta í Svíþjóð grunar að Kínverjar standi á bak við njósnirnar. Þetta komi ekki á óvart þar sem heyrst hafi um slíkar aðgerðir annars staðar í Evrópu gegn flóttamönnum frá Tíbet.
Í fréttatilkynningu frá sænsku öryggislögreglunni segir að njósnað sé um flóttamenn til að koma í veg fyrir að þeir gagnrýni stjórnvöld í landinu sem þeir flúðu frá. Stjórnvöld séu jafnframt að reyna að komast að því hverjir hafi flúið og hvers vegna.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
