Nýjar reglur Seðlabankans taka gildi á morgun en eftir gildistöku þeirra verða varúðarreglur vegna vaxtamunarviðskipta og takmarkanir vegna afleiðuviðskipta með íslenskar krónur einu eftirstandandi höftin. Breytingarnar voru kynntar í gær.

„Þær heimildir sem við höfðum voru ríflegar en sá galli var á þeim að þær voru föst upphæð á hverjum mánuði,“ segir Haukur Hafsteinsson framkvæmdastjóri LSR. „Það sem skiptir mestu máli að mínu mati er að menn hafa nú frjálsar hendur með það hvenær upphæðin er notuð. Ég tel að lífeyrissjóðirnir muni nú frekar nýta þá heimild sem þeir höfðu og jafnvel rúmlega það.“
„Þetta eru frábærar fréttir sem endurspegla gríðarlega sterka stöðu íslensks efnahagskerfis nú um stundir,“ segir Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins. Hann telur að afnám hafta hafi minniháttar breytingar í för með sér fyrir sinn sjóð.
„Víða á erlendum mörkuðum eru vextir í sögulegu lágmarki þannig að eignaverð er þar hátt. Ég held að til lengri tíma litið þá sé skynsamlegt fyrir sjóðina að byggja erlendar eignir upp í skrefum.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.