Tvær sprengjuárásir áttu sér stað við kirkjur í Egyptalandi í dag og hafa yfirvöld staðfest að minnsta kosti 36 manns séu látnir.
Fyrsta sprengjuárásin átti sér stað í kirkju í bænum Tanta, norður við höfuðborgina Kaíró en þar létu 25 manns lífið.
Síðar í dag bárust svo fregnir af seinni sprengjuárásinni, en sprengja sprakk fyrir utan kirkju í Alexandríuborg, þar sem 11 manns létu lífið en talið er að maður hafi sprengt sig í loft upp. Hann var stöðvaður af lögreglumanni, þegar hann reyndi að komast inn í kirkjuna.
Mikill mannfjöldi var við báðar kirkjur, er fólk sótti guðsþjónustur í tilefni af Pálmasunnudegi.
Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Íslamskt ríki hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum.
Ofbeldi gagnvart kristnum þar í landi hefur aukist að undanförnu en margir kenna þeim um að Múhameð Morsí, fyrrverandi forseti landsins og leiðtogi Bræðralags múslíma, hafi verið steypt af stóli af hernum, árið 2013. Í lok síðasta árs var gerð samskonar sprengjuárás í kirkju þar í landi.
Frans páfi, sem er væntanlegur í opinbera heimsókn til Egyptalands síðar í mánuðinum, hefur fordæmt árásirnar.
36 látnir eftir sprengjuárásir í tveimur kirkjum í Egyptalandi

Tengdar fréttir

Fimmtán látnir eftir sprengingu í kirkju í Egyptalandi
Hópur kristinna var þar kominn saman til að halda upp á Pálmasunnudag.