Þetta byrjaði sem bændagisting að Görðum árið 1978 en er nú gistihúsið í Langaholti. Þar er nýbúið að opna nýja tuttugu herbergja gistiálmu.
„Hjá foreldrum mínum var þetta svona valkostur við búskaparhokur, nokkrar kindur og nokkrir kálfar og beljur,” segir Þorkell, sem tekinn er við rekstrinum.
Nú er þetta eitt stærsta fyrirtæki sveitarinnar.
„Við erum þrettán sem vinnum hérna yfir vetrartímann akkúrat núna. Það er 3-4 ár síðan við byrjuðum að opna á veturna. Þetta er alltaf að stækka og stækka,” segir Rúna Björg. Yfir sumartímann fjölgar starfsfólki enn frekar og býst hún við að þau verði 25 til 30 í sumar.

„Þetta er dýrt og þetta er mikill biti. En ég stóð frammi fyrir því að einingin var óhagkvæm. Þetta er tuttugu herbergja eining, ég held úti veitingastað. Hluti af húsinu er orðinn þrjátíu ára gamall.
Það bara þurfti að gera eitthvað. Þetta varð bara að gerast. Það þarf að endurnýja og stækka. Og ef það er ekki hægt núna, hvenær er það þá hægt? Ég bara spyr.”
Nánar verður fjallað um ferðaþjónustuna undir Jökli í þættinum „Um land allt" á Stöð 2 á mánudagskvöld. Kynningarstiklu þáttarins má sjá hér fyrir neðan.