Á lokasekúndum framlengingarinnar braut Arnar Birkir gróflega á Hákoni Daða Styrmissyni, leikmanni Hauka. Víti var dæmt og Arnari Birki vísað af velli. Viktor Gísli Hallgrímsson, 16 ára markvörður Fram, varði vítið frá Guðmundi Árna Ólafssyni og tryggði Fram 32-33 sigur á Íslandsmeisturunum.
Arnar Birkir fékk útilokun með skýrslu en slapp með eins leiks bann. Arnar Birkir missir því af öðrum leik Fram og Hauka á morgun en nær oddaleiknum, ef af honum verður, á laugardaginn.
Brot Arnars Birkis má sjá í myndbandinu hér að neðan. Það hefst á 2:22:07.
Þá missir Þráinn Orri Jónsson, leikmaður Gróttu, af öðrum leik Gróttu og FH á morgun vegna rauða spjaldsins sem hann fékk gegn Fram í lokaumferð Olís-deildarinnar.
Stephen Nielsen, markvörður ÍBV, slapp hins vegar við bann þrátt fyrir að hafa fengið útilokun með skýrslu vegna óíþróttamannslegrar framkomu í leik Vals og ÍBV í lokaumferð Olís-deildarinnar.
Þá barst aganefnd erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ vegna framkomu áhorfenda í leik ÍBV og Vals í gær. Niðrandi orð voru ítrekað höfð um þjálfara Vals. ÍBV var gefinn kostur á að koma með greinargerð og fyrirtöku var því frestað til morguns.