Íslenski boltinn

Willum: Ætlum að vinna titilinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, segist vera bjartsýnn á að hans lið geti byrjað nýtt Íslandsmót jafnvel og það síðasta endaði fyrir KR-inga.

„Við erum að vona það. Við höfum reynt að byggja ofan á það og okkur líður allavega þannig að það takist,“ sagði Willum en KR-ingar höfnuðu í þriðja sætinu eftir afar misjafnt gengi framan af móti.

KR var spáð öðru sæti í árlegri spá forráðamanna, fyrirliða og þjálfara liðanna í Pepsi-deild karla á árlegum kynningarfundi deildarinnar í hádeginu.

„Við erum að fara inn í þetta mót til að vinna titilinn. En á sama tíma erum við meðvitaðir um að lið sem eru í kringum okkur í öllum spám - FH, Valur, Breiðablik - og jafnvel eitt annað lið sem er ekki þarna - munu gera atlögu að þessu. Þetta eru öll nógu sterk lið til að geta unnið mótið.“

Willum segir að það líti út fyrir spenanndi sumar þar sem að ekkert eitt lið muni stinga af.

„Það kæmi mér ekki á óvart ef að mótið yrði jafnt og lið yrðu að reita stig hvert af öðru fram eftir móti.“

„Þetta vill oft leggjast þannig að þau lið sem koma vel út úr fyrri hlutanum, þau fá aukið sjálfstraust og taka forystu í mótinu. Þannig hefur mynstrið verið í þessu undanfarin ár og jafnvel jafn lengi og ég man.“


Tengdar fréttir

Spá því að FH verji titilinn

Hin árlega spá þjálfara, fyrirliða og forráðamanna liðanna í Pepsi-deild karla var birt á kynningarfundi deildarinnar í hádeginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×