Þór/KA vann 1-0 sigur á Val í Boganum á Akureyri í fyrsta leik tímabilsins í Pepsi-deild kvenna.
Þetta var nokkuð óvæntur sigur hjá Þór/KA sem var spáð 4. sæti deildarinnar. Val var hins vegar spáð Íslandsmeistaratitlinum.
Sandra Stephany Mayor Gutierrez skoraði eina mark leiksins á 9. mínútu. Mexíkóska landsliðskonan er að spila sitt annað tímabil fyrir norðan en hún skoraði 12 mörk í 18 deildarleikjum í fyrra.
Þór/KA var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og hafði átt skot í slá áður en Sandra skoraði.
Valskonur bættu leik sinn í seinni hálfleik en það dugði ekki til. Lokatölur 1-0, Þór/KA í vil.
Þetta er öllu betri byrjun hjá Þór/KA en í fyrra þar sem liðið tapaði 4-0 fyrir Stjörnunni í 1. umferðinni.
Upplýsingar um úrslit og gang mála eru fengnar frá fótbolta.net.

