Erlent

Göbbuðu og myrtu fimmtán manns

Samúel Karl Ólason skrifar
Öryggissveitir Íraks heyja harða bardaga gegn ISIS í Mosul.
Öryggissveitir Íraks heyja harða bardaga gegn ISIS í Mosul. Vísir/AFP
Vígamenn Íslamska ríkisins í Mosul klæddu sig sem lögregluþjóna og gengu um yfirráðasvæði sitt í miðbæ borgarinnar í Írak. Þá myrtu vígamennirnir minnst fimmtán manns sem fögnuðu þegar þeir héldu að þarna væru öryggissveitir Írak mættar á vettvang. Hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna segja þá hafa myrt bæði konur og börn.

Embættismaður á svæðinu sagði AFP fréttaveitunni að minnst fimmtán borgarar hafi verið myrtir og þar að auki voru einhverjir handteknir.

Baráttan um borgina hefur staðið yfir frá því í október, en bardagar hafa verið einkar harðir og ISIS-liðar hafa ekkert gefið eftir. Austurhluti borgarinnar var frelsaður í janúar og er nú hart barist í vesturhluta Mosul. Sá hluti er eldri og götur eru þrengri og þéttbýlli.

Herinn og lögregla berjast í Mosul, en sveitir sjálfboðaliða vinna að því að frelsa nærliggjandi svæði undan oki Íslamska ríkisins. Í dag náðu slíkar sveitir tökum á bænum Hatra, samkvæmt Washington Post.

Þar er að finna um tvö þúsund ára gamlar rústir sem ISIS-liðar eyðilögðu árið 2015.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×