Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: FH - KA 2-2 | KA jafnaði á lokasekúndunum

Smári Jökull Jónsson í Kaplakrika skrifar
Hallgrímur Mar (lengst til hægri) skoraði fyrra mark KA.
Hallgrímur Mar (lengst til hægri) skoraði fyrra mark KA. vísir/ernir
KA náði ótrúlegu jafntefli gegn FH í Pepsi-deildinni í kvöld en leikurinn fór fram í Kaplakrika. Ásgeir Sigurgeirsson jafnaði fyrir KA á fjórðu mínútu uppbótartíma og tryggði Akureyringum sætt stig.

KA var sterkara liðið í upphafi og FH gekk lítið sem ekkert að byggja upp spil. Á 22.mínútu fengu gestirnir aukaspyrnu við vítateigshorn FH vinstra megin. Hallgrímur Mar Steingrímsson steig fram og gerði sér lítið fyrir og setti boltann yfir varnarvegginn og beint í nærhornið, frábært mark og KA komið í 1-0.

FH var alls ekki að spila eins og þeir eru vanir að gera og það var ekki beint í kortunum að þeir væru að fara að jafna þegar Steven Lennon skoraði glæsilegt mark á 36.mínútu. Hann fékk boltann frá Halldóri Orra Björnssyni, tók boltann á kassann við vítateigslínuna og setti hann glæsilega í hornið fjær.

Staðan í hálfleik 1-1.

FH mætti svo töluvert sterkara til leiks í síðari hálfleik. Þeir stjórnuðu leiknum og það var nokkuð sanngjarnt þegar Kristján Flóki Finnbogason skoraði með skalla á 59.mínútu eftir góða sendingu frá Böðvari Böðvarssyni.

Heimamenn gáfu eftir síðustu 20 mínútur leiksins og KA fékk ágæt tækifæri til að jafna en FH virtist ætla að halda út. Á lokasekúndum leiksins fékk KA hornspyrnu. Hallgrímur Mar fann Ásgeir Sigurgeirsson í markteignum sem jafnaði með skalla. Ótrúlegur endir og sætt stig í höfn fyrir KA.

Af hverju varð jafntefli?

FH-ingar voru ekki upp á sitt besta í dag og gáfu KA alltof mikinn tíma með boltann eftir að heimamenn höfðu komist yfir í seinni hálfleiknum. KA spilaði vel í kvöld og átti stigið fyllilega skilið og geta verið ánægðir með að vera komnir með 4 stig eftir tvo erfiða útileiki.

Miðað við reynsluna í FH-liðinu hefði maður haldið að þeir myndu sigla sigrinum í höfn eftir að hafa komist yfir og haft forystuna á lokaandartökum leiksins. Baráttugleði KA manna skilaði hins vegar sínu og þeir geta gengið sáttir frá borði þó svo að Tufa þjálfari hafði talað um það eftir leik að hann hefði viljað fá þrjú stig.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá KA var Hallgrímur Mar Steingrímsson frábær. Hann skoraði glæsilegt mark úr aukaspyrnu og lagði síðan upp jöfnunarmarkið með fínni hornspyrnu. Hann stríddi varnarmönnum FH í kvöld og er virkilega gaman að sjá þennan knáa leikmann inni á vellinum, boltatæknin er góð og hann verður erfiður fyrir varnir andstæðinganna í sumar.

Callum Williams var fínn í vörn Akureyringa og þá barðist Almarr Ormarsson eins og ljón inni á miðjunni.

Hjá FH var Böðvar Böðvarsson góður og fann sig vel sem einn af þremur miðvörðum liðsins. Þá átti Robbie Crawford ágæta spretti en margir leikmanna FH geta mun betur en það sem þeir sýndu í kvöld.

Hvað gekk illa?

FH gekk illa að ná upp spili í upphafi leiks og áttu ekki skot á markið fyrr en Steven Lennon skoraði frábært mark á 36.mínútu. Um leið og FH náði stjórn á spilinu fór þeim að ganga betur en það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir þjálfara liðsins að liðið hafi hleypt KA aftur inn í leikinn eftir að hafa verið komnir með forystuna. Reynslumikið lið FH á að gera betur í slíkri stöðu á heimavelli.

Hvað gerist næst?

Framundan hjá FH er stórleikur gegn Val á Hlíðarenda en leikurinn fer fram á mánudaginn kemur. Liðunum hömpuðu sitthvorum stóra titlinum síðasta sumar og verður afar áhugavert að sjá hvort FH liðið mætir sterkara til leiks þá en í kvöld. Þeir vonast eftir að Kassim Doumbia verði orðinn heil heilsu en hann myndi styrkja liðið töluvert.

KA mun leika sinn fyrsta heimaleik í efstu deild í 14 ár á sunnudaginn þegar þeir taka á móti Fjölnismönnum. Miðað við stuðninginn sem KA hefur fengið í fyrstu tveimur leikjum liðsins í sumar má búast við rosalegri stemmningu á Akureyri á sunnudag.

FH (3-4-3)

Gunnar Nielsen 5 - Bergsveinn Ólafsson 4, Davíð Þór Viðarsson 5, Böðvar Böðvarsson 7 - Jonathan Hendrickx 5, Emil Pálsson 5, Robbie Crawford 6, Þórarinn Ingi Valdimarsson 4 - Halldór Orri Björnsson 5, Kristján Flóki Finnbogason 5, Steven Lennon 5.

KA (4-2-3-1)

Srdjan Rajkovic 5 - Bjarki Þór Viðarsson 5, Callum Wilson 7, Guðmann Þórisson 6, Darko Bulatovic 6 - Almarr Ormarsson 6, Aleksandar Trinicic 5 - Ásgeir Sigurgeirsson 6, Emil Lyng 4, Hallgrímur Mar Steingrímsson 7 (Maður leiksins) - Elfar Árni Aðalsteinsson 5.

Varamenn: Steinþór Freyr Þorsteinsson 5

Tufa: Fengum færi til að vinna leikinn
Lærisveinar Túfa eru komnir með fjögur stig.vísir/ernir
 „Ég er ánægður með spilamennskuna og ánægður að skora mark á síðustu stundu og fá stig gegn líklega besta liðinu á landinu. En heilt yfir þá hefði ég viljað þrjú stig, við gáfum þeim hörkuleik og fengum færi til að vinna leikinn,“ sagði Srdjan Tufegdzig þjálfari KA eftir að hans menn náðu stigi gegn FH í Kaplakrika í kvöld með marki á lokasekúndum leiksins.

„Við fengum á okkur tvö mörk eftir aðstæður, sem við ræddum um í gær og dagana á undan, að gætu komið upp. Það væri lygi að segja að maður væri ekki ánægður með stig hér í Kaplakrika.“

KA byrjaði leikinn töluvert betur en heimamenn og komust verðskuldað yfir á 22.mínútu eftir glæsilegt mark Hallgríms Mar Steingrímssonar.

„Við komum vel stemmdir inn í leikinn og spiluðum vel fyrstu þrjátíu mínúturnar. Við komumst yfir og vorum með stjórn á leiknum. En gegn FH á þeirra heimavelli er erfitt að stjórna leiknum í 90 mínútur og við duttum aðeins niður og fengum mark sem maður fær sting í magann yfir.“

„Í seinni hálfleik var þetta kaflaskipt. Fyrstu 20 mínúturnar voru þeir sterkari en síðan tókum við yfir og þeir voru að verjast. Það var bara tímaspursmál hvenær markið myndi detta inn.“

Markið kom á síðustu andartökum leiksins og var þar að verki Ásgeir Sigugeirsson sem skoraði með skalla eftir hornspyrnu Hallgríms.

„Þetta var síðasta vonin. Við fengum horn og maður var að vonast eftir að boltinn gæti farið inn. Það er erfitt að útskýra hvernig manni líður en maður veit hvernig er að fá á sig svona mark, manni líður illa. Ég held að við höfum átt skilið stig í dag að minnsta kosti,“ bætti Tufa við og hrósaði síðan stuðningsmönnum KA í hástert.

„Ég er ánægður með karakterinn í liðinu og með stuðningsmennina sem sungu allan tímann og gefa okkur þennan aukakraft til að skora markið í lokin,“ sagði Srdjan Tufegdzig að lokum en stuðningsmenn KA voru frábærir á pöllunum í kvöld.

Ólafur Páll: Missum einbeitinguna
FH-ingar fagna.vísir/ernir
Ólafur Páll Snorrason aðstoðarþjálfari FH var svekktur eftir jafnteflið gegn KA í kvöld en hefði viljað sjá vítaspyrnu dæmda á KA í fyrri hálfleik.

„Ég er ekki sáttur með úrslitin, það er augljóst því við viljum vinna leikina hér í Kaplakrika. Leikurinn var ekkert sérstaklega góður af okkar hálfu fyrstu þrjátíu mínúturnar. Síðan komum við okkur inn í leikinn og komumst verðskuldað yfir þegar við byrjuðum að halda boltanum. Í stöðunni 2-1 missum við dampinn og látum þá koma á okkur,“ sagði Ólafur Páll við Vísi eftir jafnteflið gegn KA í kvöld.

KA mætti mun grimmara til leiks í kvöld og FH gekk afar illa að halda boltanum innan liðsins fyrstu þrjátíu mínúturnar. Hefur Ólafur einhverja skýringu á reiðum höndum hvers vegna það gerist?

„Nei, í raun hef ég ekki skýringu á því. Við vissum að þeir myndu mæta okkur með baráttu og þeir voru mjög grimmir og sóttu hart á okkur. Varðandi FH-liðið þá voru menn ekki alveg klárir í þá baráttu, því miður.“

FH-ingar vildu í tvígang fá vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Í fyrra skiptið féll Steven Lennon og í seinna skiptist virtist togað í treyju Kristjáns Flóka Finnbogasonar en Pétur Guðmundsson dómari sá ekki ástæðu til þess að flauta.

„Ég sá þetta illa. Ég sá til dæmis ekki tilfellið með Lenny (Steven Lennon) en varðandi atvikið hjá Kristjáni Flóka þá hefði alveg verið hægt að dæma vítaspyrnu en ég get ekki dæmt um það,“ sagði Ólafur Páll.

FH virtist vera að sigla heim þremur stigum en jöfnunarmark KA kom á fjórðu mínútu uppbótartíma og skalli Ásgeirs Sigurgeirsson var nánast síðasta snertingin á boltann í leiknum.

„Varðandi markið sem við fáum á okkur þá er það bara einbeitingarleysi hjá okkar liði, ekkert stórvægilegra en það. Við missum einbeitingu í þessu fasta leikatriði í lokin. Síðustu 10-15 mínúturnar þá náum við ekki að halda boltanum vel og spilum ekki nógu hratt á milli manna. Það er kannski orsökin fyrir því að við fáum á okkur markið,“ sagði Ólafur Páll að lokum.

Ásgeir: Öll Brekkan saman í þessu
Ásgeir hefur skorað í báðum leikjum tímabilsins.vísir/ernir
Ásgeir Sigurgeirsson skoraði jöfnunarmark KA á lokasekúndum leiksins í kvöld og var vitaskuld ánægður að leik loknum.

„Þetta var mjög sætt og mér fannst við hafa unnið fyrir þessu. Við vorum að setja á þá, sérstaklega eftir að þeir skora annað markið, og mér fannst þetta sanngjarnt,“ sagði hetja KA manna við blaðamann Vísis eftir leikinn í kvöld.

„Fyrri hálfleikur var fínn og við byrjðum mjög vel. Við missum síðan aðeins dampinn og komum ekki alveg nógu vel inn í seinni hálfleikinn. Eftir markið hjá þeim fannst mér við ná að rífa okkur í gang aftur og við höfðum alltaf trú á þessu.“

Ásgeir var að skora sitt annað mark í Pepsi-deildinni í sumar en hann skoraði glæsilegt mark í fyrstu umferðinni gegn Blikum. Er stefnan sett á að skora í hverri umferð?

„Já, vonandi. Ég reyni alltaf að skora en tek bara einn leik í einu. Auðvitað vill maður mark í öllum leikjum.“

Stuðningsmenn KA hafa verið áberandi á pöllunum í fyrstu tveimur leikjum liðsins og sett svip sinn á deildina. Þeir hafa fjölmennt frá Akureyri og sagði Ásgeir skipta miklu að hafa svona öflugan stuðning.

„Þetta er geggjað, svona á þetta vera. Þeir eru búnir að bíða lengi eftir þessu og þeir eru að nýta tækifærið eins og við. Það er bara öll Brekkan saman í þessu,“ sagði Ásgeir að lokum.

Lennon: Fannst við næstbestir í kvöld
Lennon er kominn með fjögur mörk.vísir/ernir
Steven Lennon var ósáttur með leik FH í kvöld og sagði að KA-liðið hefði líklega átt stigið skilið.

„Mér fannst við næstbestir í öllu í kvöld. Þeir byrjuðu betur og þetta hefðu verið frábær þrjú stig miðað við spilamennsku okkar. Við vorum ekki upp á okkar besta en vorum yfir þar til á síðustu sekúndunum. Þetta eru vonbrigði,“ sagði Steven við Vísi að leik loknum.

FH-liðið var ólíkt sjálfu sér í upphafi og KA náði verðskuldað forystunni á 22.mínútu.

„Við vorum hægir og náðum ekki 2-3 sendingum á milli. Menn höfðu ekki sendingarmöguleika þegar þeir voru með boltann og þeir voru einfaldlega grimmari en við. Þetta er afar svekkjandi. Við hefðum getað stolið þremur stigum þrátt fyrir slæman leik en þeir áttu líklega skilið að jafna.“

Mark Lennon á 36.mínútu en það er hans fjórða mark í deildinni í sumar eftir þrennuna í fyrsta leik gegn ÍA. Markið var sérlega glæsilegt.

„Það var fínt. Vörnin þeirra féll svolítið niður og við höfðum séð það í leiknum þeirra gegn Breiðablik. Ég komst í svæðið á milli vítateigslínunnar og varnarinnar, tók snertingu og reyndi að taka hann á lofti. Hann endaði í fjærhorninu sem var skemmtilegt,“ sagði Steven Lennon að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira