Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik - KA 1-3 | Draumabyrjun nýliðanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
KA-menn fagna marki Elfars Árna Aðalsteinssonar í kvöld.
KA-menn fagna marki Elfars Árna Aðalsteinssonar í kvöld. Vísir/Stefán
KA-menn byrja vel á sínu fyrsta tímabili í efstu deild í þrettán ár en þeir sóttu þrjú stig á Kópavogsvöll í 1. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í kvöld.

KA skoraði tvö mörk í fyrri hálfleiknum og vann á endanum 3-1 sigur eftir að Blikar minnkuðu muninn í lokin.

Darko Bulatovic, Elfar Árni Aðalsteinsson og Ásgeir Sigurgeirsson skoruðu mörkin en Hallgrímur Mar Steingrímsson lagði upp tvö þeirra.

Þetta er því annað árið í röð sem Blikar byrja Íslandsmótið á því að tapa á heimavelli á móti nýliðum í fyrstu umferðinni.

Akureyringar byrjuðu leikinn af krafti og settu pressu á vörn Blika nánast frá fyrstu mínútu. Aðstæður voru erfiðar, rok og mikil rigning, en það var ekki að sjá að það skipti Akureyringa nokkru máli - þeir létu vel fyrir sér finna.

Þessi pressa borgaði sig þegar Bulatovic skoraði með góðu skoti eftir sendingu Steinþórs Freys Þorsteinssonar, sem var að spila sinn fyrsta leik í Pepsi-deildinni eftir langa fjarveru í atvinnumennsku. Eina sem skyggði á fyrri hálfleikinn hjá KA var að hann fór meiddur af velli.

Pressan hélt áfram hjá KA-mönnum og Elfar Árni Aðalsteinsson, sem var að spila á sínum gamla heimavelli, skoraði á 43. mínútu eftir mistök hjá Gunnleifi Gunnleifssyni, markverði Blika.

Heimamenn reyndu að róa taugarnar og koma sér aftur inn í leikinn í upphafi síðari hálfleiks, en það bar lítinn árangur. Akureyringar vörðust vel og uppskáru þriðja markið eftir laglega sókn, er Hallgrímur Mar Steingrímsson renndi boltanum á Ásgeir sem skoraði með föstu skoti.

Andri Rafn Yeoman nýtti sér slæma hreinsun Guðmans Þórissonar á 70. mínútu og skoraði fyrsta mark Blika með góðu skoti en við markið rönkuðu heimamenn loksins við sér. Þrátt fyrir nokkur hálffæri á lokakafla leiksins var forystu KA aldrei ógnað að verulegu ráði. Oliver Sigurjónsson átti reyndar skot í slána úr aukaspyrnu en nær komust Blikar ekki.

Af hverju vann KA?

Nýliðarnir frá Akureyri voru mun grimmari í öllum sínum aðgerðum og stjórnuðu leiknum fyrstu 70 mínúturnar, þar til að Blikar gerðu sig loksins líklega til að ógna marki gestanna að einhverju ráði. Margir í liði KA áttu góðan dag á meðan að sárafáir, ef nokkrir, voru líkir sjálfum sér í liði heimamanna.

KA var reiðubúið í baráttuna í slagviðrinu frá fyrstu mínútu og það gerði útslagið. Það er áhyggjuefni fyrir Blika að þeir virtust engan vegir tilbúnir í þennan slag.

Hverjir stóðu upp úr?

Guðmann Þórisson átti góðan dag í vörn KA á gamla heimavellinum sínum en allir í liði KA voru sannfærandi í kvöld. Aleksandar Trninic og Darko Bulatovic líta báðir mjög vel út og Ásgeir Sigurgeirsson átti góða spretti - engan betri en þegar hann skoraði markið sitt. Hallgrímur Mar átti líka skínandi góðan leik og þannig mætti lengi áfram telja.

Hvað gekk illa?

Það er áhyggjuefni fyrir Blika að þeir virðist ætla að byrja þetta mót jafn illa og þeir enduðu síðasta tímabil. Hvort sama vandamálið sé enn við lýði og á haustmánuðum síðasta tímabils skal ósagt látið en það er eðlilegt að velta því fyrir sér. Það býr heilmikið í liði Blika en það sýndu þeir engan veginn í kvöld.

Sérstakt áhyggjuefni er sóknarleikur Breiðabliks. Blikar brugðust við markaleysi síðustu ára með því að fá þrjá öfluga sóknarmenn til liðsins en enginn þeira komst í takt við leikinn í kvöld.

Hvað gerist næst?

KA-menn eiga erfiða leiki í upphafi móts og mæta næst Íslandsmeisturum FH á útivelli. En ef þeir sýna sama kraft og þeir gerðu í kvöld er alveg ljóst að þeir geta valdið lærisveinum Heimis Guðjónssonar usla. Akureyringar eru hungraðir og það er mikill kostur.

Blikar eiga næsta leik gegn Fjölni á útivelli en bæði lið eru með óbragð í munni eftir fyrstu umferðinni og vilja sjálfsagt nýta þennan leik til að kvitta fyrir það.

Einkunnir leikmanna:

Brieðablik (4-3-3): Gunnleifur Gunnleifsson 5 - Davíð Kristján Ólafsson 4, Damir Muminovic 6, Gísli Eyjólfsson 5, Guðmundur Friðriksson 5 - Oliver Sigurjónsson 5, Arnþór Ari Atlason 3 (61. Höskuldur Gunnlaugsson x), Andri Rafn Yeoman 5 (79. Kolbeinn Þórðarson -) - Aron Bjarnaxon 3 (87. Sólon Breki Leifsson -), Martin Lund Pedersen 3, Hrvoje Tokic 3.

KA (4-3-3): Srdjan Rajkovic 7, Bjarki Þór Viðarsson 6, Guðmann Þórisson 8 (maður leiksins), Callum Williams 7, Darko Bulotovic 7 - Almarr Ormarsson 6, Aleksandar Trninic 7, Steinþór Freyr Þorsteinsson 7 (33. Emil Lyng 6) - Ásgeir Sigurgeirsson 7 (81. Daníel Hafsteinsson -), Hallgrímur Mar Steingrímsson 7, Elfar Árni Aðalsteinsson 6 (74. Ólafur Aron Pétursson -).

Túfa: Baráttan til fyrirmyndar
Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA.vísir/stefán
„Það er frábært að vera kominn með liðið aftur í efstu deild og byrja á svona sigri. Ég er afar stoltur af strákunum í dag,“ sagði Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, eftir góðan 3-0 sigur á Breiðabliki í kvöld.

„Við vorum að spila gegn lið sem ætlar sér að verða Íslandsmeistari við erfiðar aðstæður - það var mikill vindur og völlurinn blautur. Við fengum bara tvær æfingar á grasi fyrir norðan en það var alveg fyrir fyrirmyndar hvernig menn voru að berjast fyrir KA í kvöld.“

Hann var afar ánægður með sterka byrjun hans manna í kvöld. „Við mættum inn á leikinn til að vinna hann. Við vorum ekki að verjast og bíða bara eftir því að þeir gerðu mistök. Við settum pressu á boltamanninn þeirra og eltum þá út um allt.“

„Það var svo eðlilegt að við gáfum aðeins eftir þegar við komumst í 3-0 í seinni hálfleik,“ sagði Túfa, eins og hann er yfirleitt kallaður.

Hann vildi þó ekkert ræða um hversu hátt hann stefni með lið KA, sem leit vel út í leiknum í kvöld. „Þetta er bara einn leikur. Við ætlum að fagna þessum sigri vel á leiðinni norður og svo sjáum við til þegar við erum búnir að spila við öll ellefu liðin. Þá getum við talað betur saman um hversu langt þetta lið getur farið.“

Guðmann: Frábært fyrir stuðningsmennina
Stuðningsmenn KA.Vísir/Ernir
Guðmann Þórisson átti frábæran leik fyrir KA í kvöld en hann var að spila á sínum gamla heimavelli.

„Uppleggið gekk mjög vel upp og það er gaman að þetta hafi farið svona vel fyrir okkur. Við fengum á okkur þetta eina mark en annars gekk þetta vel,“ sagði Guðmann sem vildi ekki gera of mikið úr sigrinum.

„Þetta var bara einn leikur en það var frábært að gera þetta fyrir stuðningsmenn KA. Það heyrðist bara í þeim allan leikinn, ekkert hinum megin úr stúkunni. Þetta var frábært.“

Arnar: Hefði notað tíu skiptingar ef það mætti
Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks.vísir/ernir
Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, var ekki sáttur við frammistöðu sinna manna eftir 3-1 tap fyrir KA í dag.

„Við vorum undir á öllum sviðum og sigur KA fyllilega sanngjarn. Hann hefði alveg getað orðið stærri. Það er erfitt að útskýra hvað gerðist en ég er fyrst og fremst svekktur með frammistöðuna. KA-menn voru grimmari og vildu þetta meira,“ sagði Arnar eftir leikinn í kvöld.

„Maður hefði haldið að eftir að hafa verið í sex mánaða undirbúningstímabili og fá að spila á velli sem er í fínu ásigkomulagi að menn myndu koma dýrvitlausir út og selja sig dýrt. KA-menn gerðu það og uppskáru eftir því.“

Breiðablik endaði síðasta tímabil illa en Arnar hefur ekki áhyggjur af því að Blikar komi til leiks á nýju tímabili með það í farteskinu.

„Nei, alls ekki. En ef menn ætla að spila svona þá verðum við í miklu basli - það er alveg ljóst. Ef baráttan er ekki til staðar þá skiptir engu máli hversu góður þú ert í fótbolta.“

Breiðablik endurnýjaði sóknarlínu sína fyrir tímabilið og allir þrír sóknarmennirnir sem voru fengnir byrjuðu leikinn í kvöld, en náðu sér ekki á strik. „Það vantaði meira þéttleika í allt liðið. Varnarleikurinn byrjar með fremsta manni og það er allt liðið sem þarf að hreyfa sig til að skapa færi. Það var mjög lítið um allt slíkt og maður gæti lengi talað um það. Þetta var bara stjörnuhrap - alveg skelfilegt og ljóst að við höfum verk að vinna.“

Andri Rafn Yeoman var tekinn af velli í síðari hálfleik en Arnar segir að það hafi ekki verið vegna meiðsla.

„Hann var einn af mörgum sem var þungur allan leikinn. Hann skoraði vissulega markið en Andri var langt frá sínu besta. Ég hefði svo sem getað valið hvern sem er til að taka af velli - allir voru frekar slakir í leiknum. Ef maður hefði haft tíu skiptingar hefði maður nýtt þær.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira