Erlent

THAAD-kerfið greindi eldflaug Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Þetta er í fyrsta sinn síðan THAAD-kerfið var virkt sem það greinir eldflaug.
Þetta er í fyrsta sinn síðan THAAD-kerfið var virkt sem það greinir eldflaug. Vísir/AFP
Eldflaugaþróun Norður-Kóreu er á meiri hraða en nágrannar þeirra í suðri höfðu gert ráð fyrir. Nú á sunnudaginn skaut einræðisríkið eldflaug á loft, sem THAAD-kerfið svokallaða greindi og er það í fyrsta sinn sem það gerist, en það var gangsett þann 1. maí.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði um nýjasta tilraunaskotið í dag og krafðist þess að Norður-Kórea hætti eldflauga- og kjarnorkuvopnatilraunum sínum.

Han Min-koo, varnarmálaráðherra Suður-Kóreu greindi þingmönnum í dag frá nýjustu vendingum og sagði tilraunaskot Norður-Kóreu á sunnudaginn hafa heppnast. Hann sagði þá eldflaug vera nýja gerð af eldflaugum sem ítrekað hefði misheppnast að skjóta á loft.

Yfirlýst markmið Norður-Kóreu er að þróa eldflaugar og kjarnorkuvopn sem þeir geta notað til mögulegra árása á Bandaríkin. Þeir segja vopnaþróun sína þó alfarið í varnarskyni gegn árásargirni Bandaríkjanna.

Þeir segja tilraunaskotið á sunnudaginn sýna fram á að þeir hafi þróað eldflaug sem gæti borið kjarnorkuvopn.

Öryggisráðið sendi í dag frá sér samhljóma yfirlýsingu um að nauðsynlegt væri að minnka spennu á svæðinu og að Norður-Kórea hætti viðleitni sinni við að koma upp kjarnorkuvopnum. Til greina kemur að herða enn frekar viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu.

Þvingunum var fyrst beitt árið 2006 og hafa þær verið hertar mjög síðan vegna fimm kjarnorkusprenginga í tilraunaskyni og vegna tveggja tilraunaskota langdrægna eldflauga. Norður-Kóreu hefur að undanförnu hótað sjöttu tilraunasprengingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×