Sport

Hilmar Örn vann gull í Atlanta annað árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmar Örn Jónsson.
Hilmar Örn Jónsson. Mynd/Virginia T&F/CC
Sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson átti flott kast í fyrstu tilraun á Atlantic Coast Conference mótinu um helgina og enginn náði að gera betur en FH-ingurinn.

Hilmar Örn Jónsson vann þar með sleggjukast keppni mótsins annað árið í röð. Fyrsta kastið hans um helgina var upp á 69,02 metra sem dugði honum til sigurs. Mótið fór fram í Atlanta borg í Georgíuríki.

Mótið er svæðismót margra mjög sterkra háskóla í Bandaríkjunum en skólalið Hilmars endaði í öðru sæti í heildarstigakeppninni en hann keppir fyrir háskólann í Virginíu.

Hilmar Örn kastaði 71,52 metra þegar hann vann ACC-mótið í fyrra en þá fór það fram í Tallahassee í Flórída.

Hilmar Örn sýndi þarna að hann er í flottu formi og því verður spennandi að fylgjast með honum í sumar.

Hilmar Örn hefur lengst kastað 72,12 metra en því náði hann í Búdapest í fyrrasumar. Íslandmetið er 74,48 metrar og það á Bergur Ingi Pétursson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×