Sigurður Ingi gagnrýndi „stefnuleysi“ ríkisstjórnarinnar
Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhansson, formaður Framsóknarflokksins, í pontu í kvöld.Vísir/stefán
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, kallaði eftir svörum við spurningum sínum um stefnu ríkisstjórnarinnar í Eldhúsdagsumræðum í kvöld. Hann sagði ríkisstjórnina stefnulausa og ríkisstjórnarflokkana Viðreisn og Bjarta framtíð enn fremur máttlausa í samstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn.
„Sé gengið til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, þarf að hafa afl til að standa í lappirnar. Slíkt afl hefur mér sýnst að viðhengin tvö, Björt framtíð og Viðreisn, hafi ekki. Viðreisn er útibú frá Sjálfstæðisflokknum, Björt framtíð virðist svo vera orðin útibú frá Viðreisn. Og í ellefu manna ríkisstjórn sitja sex Sjálfstæðismenn- sem sagt meirihluti. Og fyrir ekki svo löngu síðan voru 9 af þeim sem eru ráðherrar nú – í Sjálfstæðisflokknum.“
Krónan og einkavæðing ríkisstjórnarinnar
Sigurður hyggur framtíð íslensks efnahags samofna íslensku krónunni en hann gagnrýndi stefnu fjármálaráðherra í gjaldeyrismálum, sem Sigurði þótti of hliðholl evrunni.
„Þótt ekki sé langt liðið á kjörtímabilið virðist ljóst að hver stefnir í sína átt og það leiðir hugann að gjaldmiðlamálum. Eða öllu heldur, því stefnuleysi sem virðist ríkja. Krónan er framtíðargjaldmiðill Íslands segir forsætisráðherra, fjármálaráðherrann talar niður krónuna hvenær sem færi gefst. Það er merkilegt að upplifa það, að fjármálaráðherra skuli vera svo taktlaus að tala niður gjaldmiðil þjóðarinnar – á erlendum sem innlendum vettvangi. Það má vera að ófyndin framsetning hans í ástarjátningu til evrunnar, sé fyndin í þröngum hópi Viðreisnar, en ég hygg þó að fleiri séu undrandi á þessari framkomu. Og frú forseti, það er eitthvað bogið við það, í fullri alvöru, að fjármálaráðherra skuli reyna eftir fremsta megni að koma hér á myntráði, sem líklega á að ljúka með upptöku evru.“
Sigurður sagði ríkisstjórnina einnig vilja hraða einkavæðingu í mennta-, heilbrigðis- og samgöngumálum.
„Helst er að skilja að ríkisstjórnin vilji hraða einkavæðingu í þessum geirum. Hennar áætlun virðist vera; látum fólkið bara greiða meira fyrir þjónustuna fyrst það þarf endilega á henni að halda.“
Hann sagði aðra leið í þessum efnum, „leið skynseminnar“, vera blandað hagkerfi, þar sem lögð yrði meðal annars áhersla á gjaldtöku í ferðaþjónustu, stofnun stöðugleikasjóðs og fjárfestingu „í innviðum víða um land, þar sem engin þensla er, án þess að blása í þenslubóluna.“
„Það er til önnur leið en ríkisstjórnin er að fara – það er leið skynseminnar. Þá leið viljum við Framsóknarmenn fara.“
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, ræddi samstöðu neytenda í kringum Costco og verðsamanburð á samkeppnisaðilum, í ræðu sinni á Eldhúsdagsumræðum í Alþingi í kvöld. Hún kallaði eftir því að þrýstingnum, sem neytendur setja á verslanir, yrði beitt á þingmenn.
Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ræddi meðal annars komu verslunarrisanna Costco og H&M hingað til lands í ræðu sinni á eldhúsdegi á Alþingi í kvöld. Hann sagði landsmenn nú horfa á ákveðna umbyltingu hér í verslun og sagði forpokuð sjónarmið koma frá þeim sem gagnrýndu komu þessara verslana.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, var harðorð í garð valinna ráðherra ríkisstjórnarinnar í ræðu sinni á Eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Katrín líkti setu ríkisstjórnarinnar við dauflegt eftirpartý þar sem "húsráðandinn er ekki einu sinni heima. Hún sagði einnig margt geta betur farið í ýmsum málaflokkum.