Verslunin var opnuð í gær og er óhætt að segja að færri hafi verið mættir en reiknað var með um morguninn þegar opnað var klukkan 9.
Íslendingar hafa tekið erlendum risum fagnandi á undanförnum árum, í það minnsta í upphafi. Þannig myndaðist öngþveiti þegar Bauhaus, Dunkin’ Donuts, Lindex og Toys R Us opnuðu dyrnar fyrir almenning. Var því reiknað með að svipað yrði uppi á teningnum við opnun Costco í gærmorgun. Fjöldinn sem var við opnunina klukkan 9 í gærmorgun var þó mun minni en reiknað hafði verið með.
Sjá einnig: Vatnið ódýrara en skilagjald flöskunnar
Engin opnunartilboð voru hjá Costco, eins og oft er við opnun, og þá er óhætt að segja að umræða hafi verið mikil á samfélagsmiðlum í aðdraganda opnunar þar sem Íslendingar hafa sætt gagnrýni samlanda sinna fyrir að stilla sér upp í röð við slíkar opnanir. Fjölmiðlar voru á staðnum og greinilegt að hluti fólks hafði áhyggjur af því að sjást í röðinni.
Þegar leið á daginn fjölgaði hins vegar töluvert í versluninni og var fjöldinn afar mikill síðdegis. Miðað við fjöldann sem mætti í morgun er áhuginn enn mikill á versluninni.
Allur gangur er á því hvort Costco bjóði betra verð en íslenskir aðilar eins og fjallað var um í Fréttablaðinu í morgun. Eins og sjá má á verðsamanburðinn hér að neðan á völdum vörum er misjafnt hvar besta verðið er að finna. Hafa verður í huga að aðrar verslanir hafa í mörgum tilfellum lækkað verð undanfarnar vikur í aðdraganda opnunar Costco.
