Hlynur var að taka því rólega er Fréttablaðið heyrði í honum í gær. Hann var þá að horfa aftur á leikinn og leyndi sér ekki að hann sveif enn á bleiku skýi.
„Ég er búinn að vera í meistaraflokki í kringum 23 ár og aldrei náð að landa þeim stóra. Guð minn góður hvað það var sætt er það gerðist loksins. Ég ætlaði ekki að hætta fyrr en ég myndi ná honum. Ég gat ekki klárað meistaraflokksferilinn án þess að verða Íslandsmeistari,“ segir Hlynur sem hefur komið víða við á ferlinum en kann afar vel við sig í herbúðum Vals þar sem hann hefur verið síðustu árin.

Tímabilið hjá Valsmönnum var ótrúlegt. Liðið varð bæði Íslands- og bikarmeistari og komst í undanúrslit í Áskorendakeppni Evrópu. Í deildinni gekk ekki nógu vel og liðið varð aðeins í sjöunda sæti. „Við vorum næstum því heppnir að komast í úrslitakeppnina. Það má alveg segja að þetta sé búið að vera ótrúlegt tímabil,“ segir Hlynur en með því að dreifa álaginu þjappaði liðið sér saman. Allir voru með sín hlutverk á hreinu.
Gaf ekki upp vonina
Hlynur hefur ekki oft komist mjög nálægt því að verða Íslandsmeistari. Hann fór nokkrum sinnum í undanúrslit en einu sinni fór hann í oddaleik um titilinn.
„Það var 2010 er við Valsmenn fórum í oddaleik gegn Haukum. Það var hrikalega svekkjandi að tapa því. Ég gaf aldrei upp vonina og sérstaklega ekki eftir að ég kom til Vals. Við vorum með frábært lið í fyrra en náðum því samt ekki. Núna small þetta hjá okkur,“ segir Hlynur en hann og Sigurður Ingiberg hafa verið mjög öflugir í markinu og eiga sinn þátt í titlinum.
„Okkar samstarf hefur verið frábært. Ég veit ekki hvað eru mörg ár á milli okkar en við erum alltaf kallaðir feðgarnir. Ég gæti sennilega verið pabbi hans eins og flestra í liðinu. Hann hefur sprungið út og ég á ekki til orð yfir hvað hann var geggjaður í oddaleiknum.“

„Ég meiddist fyrir seinni Evrópuleikinn í undanúrslitunum. Þá gat ég nánast ekki stigið í löppina. Ég hef varla æft síðan. Ég hef brutt töluvert magn af sterkum verkjalyfjum fyrir leiki og eiginlega of mikið. Ég hef síðan tekið þetta á hörkunni. Síðustu þrjár vikur hafa samt verið mjög erfiðar út af verkjum,“ segir Hlynur en hann þarf væntanlega að fara í aðgerð á mjöðm í sumar vegna meiðslanna.
Gæti haldið áfram
Hlynur verður 42 ára í desember og íhugar að halda áfram. Hann á þó eftir að setjast niður með Valsmönnum og ræða framhaldið en hann langar ekki að hætta.
„Mig langar að spila áfram en vissulega er það rómantík að hætta núna og fara í annað hlutverk. Þetta kemur í ljós fljótlega. Þetta er bara svo ógeðslega gaman. Vera með þessum gaurum allan daginn. Það heldur manni ungum og ferskum. Ég elska að spila handbolta. Af hverju ætti ég að hætta á meðan ég hef gaman af þessu og nýtist liðinu eitthvað?“