Þór/KA hefur átt frábært tímabil í Pepsi-deild kvenna og trónir á toppnum eftir sjö umferðir með fullt hús stiga. Á mánudaginn gerðu norðanstúlkur sér lítið fyrir og skelltu Íslandsmeisturum Stjörnunnar í Garðabænum, 3-1.
Helena Ólafsdóttir fór yfir leikinn eins og alla aðra í Pepsi-mörkum kvenna á Stöð 2 Sport í gærkvöldi. Hún var þar með sérfræðingunum Þorkeli Mána Péturssyni og Þorláki Árnasyni.
Þorkell Máni hrósaði Halldóri Jóni Sigurðssyni, Donna, þjálfara Þórs/KA, fyrir að vita upp á hár hvað hann ætlar sér með lið sitt.
„Fyrir leik sagði hann að það væri ekkert sem væri að fara að koma þeim á óvart við leik Stjörnunnar,“ sagði Máni og rifjaði upp orð hans um að Þór/KA ætlaði sér að vinna alla leiki í sumar.
„Það er þetta viðhorf sem er í gangi hjá Þór/KA núna. Af öllum liðum sem eru að spila í íslenskum fótbolta í dag tel ég að Þór/KA sé langsvalasta liðið.“
Þorlákur Árnason segir að norðanstúlkur hafi sterkan málstað enda hafi um tíma í vetur staðið til að leggja liðið niður. Því var þó afstýrt. „Þau hafa mikið að selja,“ segir hann.
Máni tekur undir það. „Ef að Þór/KA stendur uppi sem sigurvegari á þessu Íslandsmóti, er þetta orðið sigursælasta knattspyrnulið Akureyrar frá upphafi.“
„Þá geta menn tekið allar fundargerðir um það að slíta þessu samstarfi og troða því þangað sem sólin skín ekki.“
