Kýpur var þrettán stigum yfir í hálfleik, 40-27, en lítið gekk hjá íslenska liðinu að skora. Byrjunarliðið setti aðeins 24 stig en bekkurinn skilaði 33 stigum.
Tryggvi Snær Hlinason, leikmaður Þórs Akureyrar, átti einmitt stórgóða innkomu af bekknum en hann skoraði þrettán stig á 20 mínútum og tók að auki fjórtán fráköst. Hann var stigahæstur íslenska liðsins.
Tryggvi hitti úr sex af sjö skotum sínum í teignum en brenndi af einu þriggja stiga skoti. Ekki þekktur fyrir að setja mörg svoleiðis. Hann tók sjö varnarfráköst og sjö sóknarfráköst.
Jón Axel Guðmundsson skoraði átta stig fyrir íslenska liðið en hann hitti aðeins úr þremur af ellefu skotum sínum og þeir Kári Jónsson og Kristófer Acox sjö stig hvor.
Íslenska liðið er meira og minna skipað leikmönnum U20 ára liðsins sem eru að fá tækifæri til að sýna sig en lykilmenn liðsins fóru ekki með á Smáþjóðaleikana. Strákarnir eru að berjast um síðustu lausu sætin í íslenska hópnum sem fer á EM í haust.