Leiknir R. lyfti sér upp í 6. sæti Inkasso-deildarinnar með 2-0 sigri á Selfossi í Breiðholtinu í kvöld. Þetta var annar sigur Leiknismanna í síðustu þremur deildarleikjum.
Þetta var aftur á móti annað tap Selfyssinga í síðustu fjórum leikjum en þeir eru í 4. sæti deildarinnar með 10 stig, fimm stigum á eftir toppliði Þróttar.
Staðan var markalaus í hálfleik en á 62. mínútu kom Tómas Óli Garðarsson Leikni yfir með skoti í stöng og inn eftir undirbúning Arons Fuego Daníelssonar og Elvars Páls Sigurðssonar.
Á 76. mínútu skallaði Aron Fuego boltann svo á Ingvar Ásbjörn Ingvarsson sem skoraði annað mark heimamanna.
Fleiri urðu mörkin ekki og Leiknismenn fögnuðu góðum sigri.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.
Annar sigur Leiknis í síðustu þremur leikjum
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
