Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur Ó. - KA 1-4 | Þrenna Lyng afgreiddi Ólafsvíkinga

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Akureyringar fögnuðu á Ólafsvík í kvöld.
Akureyringar fögnuðu á Ólafsvík í kvöld. vísir/andri marinó
KA vann öruggan 4-1 sigur á Víkingi Ó. er liðið heimsótti Ólafsvík í kvöld. Með sigrinum komst KA í ellefu stig og hoppaði þar með upp í þriðja sæti deildarinnar, um stundarsakir að minnsta kosti. Ólafsvíkingar eru sem fyrr neðstir í deildinni með þrjú stig.

Emil Lyng skoraði þrennu og Elfar Árni Aðalsteinsson eitt fyrir KA á meðan Gunnlaugur Hlynur Birgisson skoraði stórkostlegt mark fyrir Ólsara sem því miður fyrir þá skipti litlu sem engu en markið kom alltof seint í stöðunni 3-0 fyrir KA.

Afhverju vann KA?

Þetta var furðulegur leikur að mörgu leyti. Að mínu mati var Víkingur Ó. með engu móti hörmulegt þrátt fyrir afgerandi tap. Það sem KA gerði betur var að í öllum aðgerðum var liðið beittari, skeinuhættir og nýtti færin sín. Eitthvað sem Víkingur Ó. gerði alls ekki.

KA sýndi frumkvæði í bæði fyrri og seinni hálfleik með marki á fyrstu tveimur mínútum hvers hálfleiks. Það gaf tóninn bæði fyrir fyrri og seinni og gaf KA yfirhöndina sem liðið nýtti fullkomlega. Víkingur Ó. sá aldrei til sólar og átti í raun aldrei möguleika í kvöld og fyrir það verður að hrósa KA.

Hverjir stóðu upp úr?

Fyrst verður auðvitað að nefna Emil Lyng sem skoraði þrennu í kvöld. Þú stendur ekki mikið meir upp úr en það. Hann gaf tóninn í bæði fyrri og seinni hálfleiks með marki á upphafsmínútum báða leikhluta og innsiglaði svo þrennuna með marki af vítapunktinum.

Einnig verður að nefna Darko Bulotovic en hans hefur verið sárt saknað í undanförnum leikjum en hann haltraði útaf í 2-0 sigrinum á móti Fjölni og í hans fjarveru hefur liðið fallið úr bikarnum, tapað gegn Stjörnunni og misst 2-0 forystu niður í jafntefli gegn Víkingi R. í síðustu umferð.

Hann kom aftur í varnarlínu liðsins í dag og lagði upp tvö mörk. Það er gulls ígildi fyrir KA að fá þennan mann aftur. Sérstaklega í ljósi þess að Guðmann verður líklega frá næstu mánuði.

Hvað gekk illa?

Þrátt fyrir slæmt tap á heimavelli var erfitt að finna og benda á einhvern einstakling sem ekki stóð sig vel í liði heimamanna. Helst var að varnarlína Ólafsvíkinga virtist ekki í neinum takti í dag.

Baráttan var til þó fyrirmyndar en trekk í trekk sluppu KA-menn inn fyrir vörn heimamanna og örsökin virtist alltaf vera samskipta- eða taktleysi í varnarlínu Ólsara.

Einnig fékk Víkingur Ó. fín færi til að styrkja stöðu sína en á ögurstundum brást sóknarmönnum liðsins bogalistinn og gat ekki komið boltanum í netið. Í stöðunni 2-0 fékk Víkingur Ó. tvö úrvals færi sem lið verða bara að nýta betur. KA nýtti færin sín og þar, að stórum hluta, lá munurinn á milli liðanna.

Víkingur Ó. verður að nýta færin sín betur ætli liðið að halda sér upp í deild þeirra bestu.

Hvað gerist næst?  

Landsleikjahlé er auðvitað næst á dagskrá hjá báðum liðum. Eftir 10 daga fær KA lið ÍA í heimsókn á Akureyri en daginn eftir fer Víkingur Ó. í heimsókn á Extra völlinn í Grafarvoginum og mætir Fjölni.

KA er óskrifað blað í deildinni og erfitt að gera sér grein fyrir hvar markmiðin þeirra eiga að liggja enn sem komið er en á sama tíma verður Víkingur Ó. að fara að sækja í úrslit og það sem fyrst. Liðið verður hreinlega að ná í úrslit í Grafarvoginum.

Einkunnir leikmanna

Víkingur Ó.: Cristian Martínez 7, Alexis Egea 4 Nacho Heras 5, Hörður Ingi Gunnarsson 4, Tomasz Luba 5 (63. Alfreð Már Hjaltalín 4) ,Guðmundur Steinn Hafsteinsson 5, Þorsteinn Már Ragnarsson 5, Alonso Sanchez 7 (44. Gunnlaugur Hlynur Birgisson 6), Kwame Quee 5, Kenan Turudija 5, Eric Kwakwa 5 (64. Pape Mamadou Faye 5).

KA: Srdjan Rajkovic 7, Callum Williams 7, Ólafur Aron Pétursson 6, Almarr Ormarsson 7, Elfar Árni Aðalsteinsson 7 (77. Steinþór Freyr Þorsteinsson -), Hallgrímur Mar Steingrímsson 6, Ásgeir Sigurgeirsson 7, Darko Bulatovic 8 (82. Ívar Örn Árnasson), Aleksandar Trninic 7, Hrannar Björn Steingrímsson 7, Emil Lyng 9* (89. Baldvin Ólafsson -).

Tufegdzic: Sýndu í dag hvernig karakter er í þessu liði

Þjálfari KA, Srjdan Tufegdzic, eða Tufa eins og hann er gjarnan kallaður, var ánægður með öruggan sigur liðsins á Víkingi Ó. í Ólafsvík í kvöld. Hann segir að góður undirbúningur hafi lagt grunninn að sigrinum.

„Við vorum búnir að undirbúa okkur vel. Við vorum að mæta góðu liði Ólafsvík og það er mjög sjaldan sem maður kemur hingað og tekur stig auðveldlega. Við æfðum vel í vikunni. Við verðum að taka það fram vegna þess við lögðum mikla vinnu í undirbúa okkur vel fyrir leikinn.”

Hann segir að markið sem kom KA í 3-0 í upphafi seinni hálfleiks hafi verið vendipunktur í leiknum og hafi í raun klárað leikinn. Emil Lyng kom til liðsins stuttu fyrir mót og skoraði þrennu í dag. Tufa hrósaði honum sérstaklega.

„Við fengum hann rétt fyrir mót og þetta er frábær leikmaður og frábær karakter líka sem skiptir miklu máli fyrir mig og liðið.”

Meiðsli og töpuð stig á lokamínútum leikja hafa sett svip sinn á undanfarnar vikur KA en Tufa segir að liðið hafi aldrei misst trúna.

„Við horfum alltaf fram á við eftir hvern einasta leik. Það er mjög erfitt að lenda í þessum meiðslum og tapa stigum í tveim leikjum á 95. og 96. mínútu en þeir sýndu í dag nákvæmlega hvernig karakter er í þessu liði.”

Hann vildi þakka sérstaklega stuðningsmönnum félagsins fyrir stuðningin en þeir fylltu tvær rútur frá Akureyri til Ólafsvíkur í dag.

„Mig langar að þakka þeim. Þeir keyra hérna 1000 kílómetra til að fylgjast með liðinu og þessi sigur er fyrir þá."

Guðmundur Steinn: Megum ekki detta í einhverja depurð

Guðmundur Steinn, fyrirliði Ólafsvíkur, var fámáll í leikslok. Hann sagði bara eitt í stöðunni fyrir liðið til að vinna sig úr botnbaráttunni.

„Það er bara ein leið að því. Leggja meiri vinnu, vera jákvæðir og ekki detta í einhverja depurð. Við verðum bara að gera það. Við höfum 10 daga til að vinna að næsta leik sem er reyndar alltof langur tími eftir svona leik. "

Emil Lyng: Eigum bestu stuðningsmennina í deildinni

Emil Lyng skoraði þrennu fyrir KA í kvöld en þessi dani kom til félagsins núna rétt fyrir mót. Honum leið að vonum vel eftir sigurinn og frammistöðu sína.

„Þrjú mörk. Þrjú stig og núna eigum við langa ferð fyrir höndum til Akureyrar. Þetta er besta leiðin til að fara frá Ólafsvík í kvöld.”

Hann segist ekki geta lofað þrennu aftur í sumar en segir að hann sé kominn hingað til að skora mörk. Hann tekur í sama streng og þjálfari liðsins, Tufa, og segir að 3-0 markið sem hann skoraði hafi drepið leikinn fyrir fullt og allt.

En hvernig finnst Emil Lyng að vera kominn í Pepsi deildina?

„Ég er frekar nýr og hef ekki séð öll liðin ennþá. Mér líður vel. Margir góðir leikmenn hérna. Í samanburði við Danmörku er þetta auðvitað minna land en gæðin eru mikil. Vellirnir eru jafn stórir, það eru tvö mörk hérna líka eins og þar.”

Hann tekur í sama streng og Tufa og vildi þakka stuðningsmönnum sérstaklega fyrir.

„Ég hef ekki verið hérna lengi en það er nokkuð ljóst að okkar stuðningsmenn eru þeir bestu deildinni. Þeir eru hér, þar og allstaðar og við kunnum að meta það. Þeir gefa okkur stórt klapp á öxlina og við erum þakklátir fyrir það."

Ejub: Kannski erum við ekki betri en þetta

Ejub Purisevic var ekki sáttur í leikslok og sagði að mark KA strax á annari mínútu hafi gert allt mjög erfitt. Hann sagði einnig að liðið hefði átt að nýta færin sín betur.

„Við sköpuðum okkur nokkur fín færi í fyrri hálfleik og ef við hefðum nýtt þau þá hefðum við kannski getað komið okkur aftur inn í leikinn en við gerðum það ekki og þegar við fengum mark í andlitið strax í upphafi seinni háfleiks þá var leikurinn bara gjörsamlega búinn.”

Hann segir það vitaskuld vera pirrandi að fá á sig mark áður en leikurinn er varla byrjaður en KA skoraði í upphafi fyrri og seinni hálfleiks.

„Það er bæði pirrandi og erfitt fyrir mig og liðið að fá á sig svona mark. Það er erfitt að útskýra þetta. Þetta gerist bara. Hvort það sé einbeitingin okkar, gæðin okkar eða gæði andstæðingana er erfitt að segja. En svona mark í byrjun leiks gerir hlutina erfiða og sérstaklega gegn jafn góðu liði og KA.”

Hann segir að miklar hrókeringar í vörninni tilkomin vegna meiðsla gæti hafa haft áhrif en vill þó ekki nýta það sem einhverja afsökun.

„Kannski erum við bara ekkert betri en við erum að sýna. Kannski er þetta að einhverju leyti útaf meiðslum. En þetta er allavega ekki nógu gott. Við óskum KA til hamingju. Þeir voru einfaldlega betri en við.”

Hann segir að hann og Ólafsvíkingar muni berjast áfram til síðasta leiks.

„Ég mun gera mitt besta og svo sjáum við bara hvort það verði nógu gott eða ekki."

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira