Erlent

Kim Jon-un heitir því að halda áfram „gjafasendingum“ til Bandaríkjamanna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá tilraunaskoti Norður-Kóreumanna í gær. Yfirvöld í Norður-Kóreu segja flaugina geta borið kjarnaodd.
Frá tilraunaskoti Norður-Kóreumanna í gær. Yfirvöld í Norður-Kóreu segja flaugina geta borið kjarnaodd. Vísir/afp
Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, heitir því að hverfa aldrei frá áframhaldandi þróun kjarnorkuvopna og halda áfram að senda yfirvöldum í Bandaríkjunum „gjafir“ í formi eldflauga- og kjarnorkuprófana.

Yfirvöld Bandaríkjanna og Suður-Kóreu hafa svarað fyrir nýjasta tilraunaskot Norður-Kóreu, það fyrsta á langdrægri eldflaug, með stífum varnaræfingum. Forseti Suður-Kóreu, Moon Jae-in, fyrirskipaði æfingarnar í samráði við Bandaríkin til að sýna Norður-Kóreu fram á traustan eldflaugaflota ríkjanna.

Samkvæmt frétt AP-fréttaveitunnar flutti ríkissjónvarpsstöð Norður Kóreu, KCNA, fréttir af því í dag að leiðtoganum, Kim Jong-un, þætti mikið til langdrægu eldflaugarinnar koma. Þá var eldflaugin sögð geta borið stóran kjarnaodd. KCNA sagði Kim Jong un enn fremur hafa hvatt sérfræðinga sína til að „senda í auknum mæli stórar og smáar „gjafasendingar“ til Kananna,“ og vísaði þar til tilraunaskotanna.

Þá lýstu yfirvöld Norður-Kóreu einnig yfir ánægju sinni með að nýjasta tilraunaskotið, og það best heppnaða til þessa, skyldi hefjast á loft á þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna.

Bandarískir sérfræðingar telja að flaug Norður-Kóreu, sem skotið var á loft í gær, gæti náð til Alaska. Þá hafa Bandarísk stjórnvöld farið fram á að fundur verði haldinn í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eins fljótt og auðið verður vegna eldflaugartilraunarinnar. Búist er við að ráðið fundi í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×