Íslenski boltinn

Portúgali tekur við Fram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fram situr í 4. sæti Inkasso-deildarinnar.
Fram situr í 4. sæti Inkasso-deildarinnar. vísir/ernir
Portúgalinn Pedro Hipólito verður næsti þjálfari karlaliðs Fram í fótbolta. Þetta staðfesti Hermann Guðmundsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, í samtali við Fótbolta.net.

Hipólito kemur til landsins í dag og skrifar þá undir samning við Fram út tímabilið með möguleika á framlengingu.

Hipólito var hér á landi í síðustu viku og fylgdist m.a. með leik Fram og Selfoss á föstudaginn. Hann hélt svo heim til Portúgal en er væntanlegur aftur til landsins í dag eins og áður sagði.

„Þetta er mjög spennandi. Pedro er talinn einn efnilegasti ungi þjálfari Portúgals. Við erum með með stóran hóp af ungum og efnilegum leikmönnum og teljum að við séum að fjárfesta í framtíðinni. Við erum spenntir að sjá hvað hann gerir,“ sagði Hermann við Fótbolta.net.

Hipólito tekur við þjálfarastarfinu hjá Fram af Ásmundi Arnarssyni sem var óvænt rekinn á dögunum.

Ólafur Brynjólfsson hefur stýrt Fram í síðustu tveimur leikjum liðsins í Inkasso-deildinni. Hann verður aðstoðarmaður Hipólito.

Hinn 38 ára gamli Hipólito stýrði Atlético CP í portúgölsku B-deildinni á þarsíðasta tímabili. Hann lék fjölda leikja fyrir yngri landslið Portúgals á árum áður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×