Björgvin Stefánsson skoraði þrennu þegar Haukar unnu stórsigur á Leikni F., 5-0, á Gaman Ferða vellinum í Hafnarfirði í 9. umferð Inkasso-deildarinnar í dag.
Leikurinn var aðeins 22 sekúndna gamall þegar Björgvin kom Haukum yfir eftir sendingu frá Hauki Ásberg Hilmarssyni.
Á lokamínútu fyrri hálfleiks skoraði Arnar Aðalgeirsson annað mark Hauka eftir sendingu frá Björgvini.
Eftir tveggja mínútna leik í seinni hálfleik kom Haukur Ásberg heimamönnum svo í afar góða stöðu þegar hann skoraði þriðja mark þeirra.
Björgvin bætti svo tveimur mörkum við áður en yfir lauk. Hann hefur nú skorað sex mörk í Inkasso-deildinni, jafn mörg og Ivan Bubalo hjá Fram.
Haukar eru í 6. sæti deildarinnar en Leiknir í því ellefta og næstneðsta.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.
